Hvenær deyr tónlistarstefna?

hip hop
 · 
Lestin
 · 
Popp
 · 
pönk
 · 
rokk
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni

Hvenær deyr tónlistarstefna?

hip hop
 · 
Lestin
 · 
Popp
 · 
pönk
 · 
rokk
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
17.05.2017 - 16:50.Anna Gyða Sigurgísladóttir.Lestin
Rokkið er dautt, pönkið er dautt, poppið er dautt, indie-rokkið er dautt. Tónlistarstefnur virðast deyja hvað eftir annað.

Lestin á Rás 1 velti fyrir sér staðhæfingum um dauða tónlistarstefna í þætti dagsins: 

„Rokkið dó þegar Buddy Holly, Richie Valens og The Big Bopper létu lífið í flugslysi fyrir 58 árum, það dó síðan aftur er Elvis Aron Presley fannst látinn á baðherbergisgólfinu á heimili sínu í Graceland í Mephis. Pönkið dó með Sid Vicious árið 1979. Nei, það dó þegar hljómsveitin Blink 182 ákvað að bendla sig við tónlistarstefnuna. Poppið dó með útgáfu samnefndrar plötu bresku hljómsveitarinnar Radiohead árið 1993, Pop is dead, poppið er dautt. Rokkið dó þegar rafvirki kom að líki Kurts Cobains í agnarsmáum grænum garðskála í bakgarðinum heima hjá honum í Seattle-borg. Rokkið dó er rapparinn Drake gerðist alheims stórstjarna, og Beyoncé var krýnd heiðursorðu alheims konungsfjölskyldu menningariðnaðarins. Rokkið dó fyrir þremur árum þegar Courtney Love staðhæfði að hún hefði fundið flak malasísku flugvélarinnar sem hvarf á dularfullan hátt. Rokkið dó þegar ísraelsk-bandaríski tónlistarmaðurinn Gene Simmons, bassaleikari og annar söngvari hljómsveitarinnar KISS sagði í viðtali við Rolling Stone á síðasta ári að rokkið væri einfaldlega dautt.

Fæðingar, upphaf lífs í er algengt umræðuefni í daglegu tali; myndum af ogguponsu litlu skópari og ogguponsu lítilli samfellu er stillt upp við hlið sónarmyndar af lítilli baun og flæða þær myndir síðan um færslu-höf samfélagsmiðla. Eitthvað minna virðist þó talað um fæðingu, barnsburð, innan menningarheimsins, þ.e. er það kemur að tónlistarstefnum og straumum. Óíkt heimi mannfólksins virðist dauðinn hins vegar ekki vera þar eins skammarlegt umtalsefni. Dauðinn er heldur hversdagslegur, ekki tabú og menn ekki hræddir við að ákvarða dánardag þess sem lifir ekki eftir tifandi klukku.“