Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir að viðskipti Japans og Íslands með hvalaafurðir sé fyllilega lögleg og í samræmi við alþjóðalög. Hann skoðar nú hvernig brugðist verður við stöðvun á flutningum á hvalkjöti héðan til Japans

Svo virðist sem hvalveiðar séu komnar í öngstræti vegna þess að ekkert skipafélag vill flytja afurðirnar frá Hval hf. Nú eru horfur á því að sex gámar fullir af fyrstu hvalkjöti verði fluttir aftur heim til Íslands.Samskip fluttu gámana til Rotterdam á dögunum. Þar var þeim lestað um borð í skip sem átti að flytja þá til Japans. Það hafði viðkomu í Hamborg þar sem athugasemdir voru gerðar við skráningu gámanna sem settir voru í land. Þegar yfirvöld í Þýskalandi voru búin að gefa grænt ljós var skipið farið úr höfn. Annað skip frá sama félagi tók þá gámana en þá var skipafélagið búið að ákveða að taka ekki farminn til Japans. Það er nú á leið til Rotterdam þar sem Samskip hafa  samþykkt að flytja kjötið aftur heim til Íslands og það sem meira er Samskip ætla alfarið að hætta flutningum á langreyðarkjöti. Grænfriðungar hafa staðið fyrir mótmælum bæði í Rotterdam og í Hamborg og reynt að hindra för skipanna og vekja athygli á málinu.

Árni Finnsson segir að bæði í Rotterdam og í Hamborg sé litið á hvalkjöt sömu augum og fílabein eða nashyrningahorn. Það sé varningur sem þessar hafnir vilji ekki vera þekktar fyrir að hleypa í gegn. Hann segir að baráttan fyrir því að stunda hvalveiðar sé fyrir löngu töpuð.