Húsnæðisverð gæti hækkað um 30 prósent

31.01.2017 - 21:46
Mynd með færslu
Í Hafnarfirði. Mynd úr safni.  Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Húsnæðisverð gæti hækkað um allt að 30 prósent á næstu þremur árum, samkvæmt nýrri spá greiningardeildar Arionbanka. Hagfræðingar bankans telja að 8-10.000 nýjar íbúðir þurfi fram til ársloka 2019 til að anna eftirspurn.

 

Sjaldan hefur verið erfiðara fyrir ungt fólk að koma sér upp þaki yfir höfuðið og nú. Greiningardeild Arionbanka kynnti í dag skýrslu um íbúðamarkaðinn, þar sem fram kemur að húsnæðisverð hélt áfram að hækka í fyrra. Hækkunin í desember nam fimmtán prósentum milli ára á höfuðborgarsvæðinu, og nærri 20 prósentum á landsbyggðinni.

„Eins og við teiknum þetta upp þá vantar 8-10.000 íbúðir á landið allt fram til ársloka 2019,“ segir Erna Björg Sverrisdóttir, hagfræðingur hjá greiningardeildinni. „Þá værum við að vinna á þessum húsnæðisskorti, en við sjáum miðað við áætlanir Samtaka iðnaðarins og Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, að það er ólíklegt að framboðið slái á verðhækkanir á næstu misserum.“

Í áætlunum sé gert ráð fyrir 1-3000 færri íbúðum en þörf er á. Erna segir erfitt að skýra hversu hægt gangi að byggja íbúðarhúsnæði, en ein skýringanna sé sú að byggingarverktakar hafi í nógu að snúast að byggja fyrir atvinnulífið, til dæmis ferðaþjónustuna. Hagfræðingar Arionbanka spá töluverðum verðhækkunum á húsnæði á næstu árum, miðað við spár um þróun efnahags og fólksfjölgun á landinu.

„Við gerum ráð fyrir að fram til ársloka 2019 hækki húsnæðisverð um 30 prósent,“ segir Erna. „Við höfum verið að sjá mjög hraðar hækkanir á fasteignamarkaði að undanförnu, og gerum ráð fyrir að það haldi áfram núna, þannig að mestu hækkanirnar verði á fyrri hluta þessa árs, við erum að spá um 14 prósenta hækkun.“

Erna segist helst eiga eitt gott ráð handa ungu fólki sem hyggur á sín fyrstu fasteignakaup: „Nú er ég í þessari aðstöðu sjálf, svo það eina sem ég get sagt er bara að spara.“

 

Mynd með færslu
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV