Átakshópur um aukið framboð á íbúðum og aðgerðir til að bæta stöðuna á húsnæðismarkaði leggur til að sveitarfélög og ríkið auki fjárveitingar til stofnframlaga vegna uppbyggingar í almenna húsnæðiskerfinu og að tekjumörk verði hækkuð. Einnig er lagt til að óhagnaðardrifin húsnæðisfélög verði efld og skýrari reglur settar á leigumarkaði.
Krafa um þjóðarátak
Mikilvæg krafa verkalýðsfélaganna er að ástandið á húsnæðismarkaði verði bætt. Bæði VR og Starfsgreinasambandið tala um þjóðarátak og þjóðarsátt í húsnæðismálum. Forsætisráðherra skipaði átakshópinn snemma í desember og honum var gert að skila tillögum 20. janúar sem kynntar voru í dag. Í honum sátu fulltrúar ríkis, sveitarfélaga og vinnumarkaðarins. Lagðar eru fram tillögur í 40 liðum sem einkum miðast að því að byggðar verði fleiri íbúðir á viðráðanlegu verði. Samstaða var innan hópsins um niðurstöðuna.
10 þúsund íbúðir
Skortur á íbúðum hefur aukist frá 2016 þegar framboð og eftirspurn var nokkurn veginn í jafnvægi. Hópurinn áætlar að byggðar verði 10 þúsund íbúðir á næstu þremur árum. 2022 muni þó enn vanta um 2000 íbúðir og samt sem áður verða þeir tekju- og eignalágu í vanda. Það helgast meðal annars af því að minni íbúðir sem ættu að vera ódýrari eru einkum byggðar á dýrustu svæðunum og stórar íbúðir á ódýrari svæðunum. En þýðir þetta að þær íbúðir sem eru þegar á teikniborðinu muni ekki gagnast þeim tekjulágu? Anna Guðmunda Ingvarsdóttir annar formaður átakshópsins segir að vísbendingar séu um það.
„Þörfin sem er til staðar er kannski meiri hjá tekju og eignalægri. Það eru vísbendingar um að það framboð sem er að myndast muni ekki nýtast þeim,“ segir Anna Guðmunda.
Tekjumörk hækkuð
Það er lagt til að sveitarfélög auki fjárveitingar í stofnfjárframlög til að byggja íbúðir í félagslega og almenna húsnæðiskerfinu. Hversu mikið, er eitthvað sem á eftir að ræða. Til að stuðla að fjölbreytni er lagt til að hægt verði að lögfesta kröfu um að sveitarfélög ráðstafi 5 prósentum af byggingarmagni fyrir leiguíbúðir í almenna húsnæðiskerfinu. Einnig að tekjumörk þeirra sem eiga rétt á íbúðum verði hækkuð. Þá er stefnt að því að lækka fjármagnskostnað félaganna sem byggja.
Áhersla á óhagnaðardrifin húsnæðisfélög
Það er lagt til að óhagnaðardrifin húsnæðisfélög eins og margir þekkja annars staðar á Norðurlöndum verði efld. Horft er til félagsins Blæs sem ASÍ og BSRB stofnuðu. Leitað verði eftir samstarfi SA, lífeyrissjóða og stéttarfélaga um samstarf um fjármögnun. Tekjumörk skipta ekki eins miklu máli í slíkum félögum og í almenna húsnæðiskerfinu. En tryggja tillögurnar að skipulega verði byggt til að koma til móts við þá sem ráða aðeins við ódýrt húsnæði?
„Tillögunnar er nákvæmlega ætlaðar til að gera þetta. Byggja undir ábyrgari uppbyggingu þannig að húsnæðisþörf mismunandi hópa verði mætt á réttan hátt og áætlanagerð verði mun stærri þáttur í uppbyggingu húsnæðis en verið hefur,“ segir Anna Guðmunda.
Leiguvernd aukin
Það er lagt til að réttarstaða leigjenda verði bætt. 17% fullorðinna búa í leiguhúsnæði eða 35 þúsund heimili. Lögð verður áhersla á að leigusamningar verði skráðir í gagnakerfi. Sveigjanleiki á útleigu hluta húsnæðis verði aukinn. Sveitarfélög geti sett á tómthúsagjald sem felst í því að hægt er að skattleggja autt og ónotað íbúðarhúsnæði sem atvinnuhúsnæði. Fjölmargar tillagnanna beinast að skipulags- og byggingarmálum. Allt regluverk verði einfaldað og ódýrara.
Borgarlínu hraðað
Það er ljóst að ódýrt húsnæði verður helst ekki byggt í miðbæ Reykjavíkur heldur í úthverfum og nágrannasveitarfélögun. Í því ljósi eru lagðar fram tillögur um að samgöngur verði efldar. Uppbyggingu borgarlínu verði hraðað og gjaldsvæði almenningssamgangna samræmd. Þá verði tekin upp samgöngupassi sem myndi gagnast námsmönnum og tekjulitlu fólki.
Nánar er fjallað um málið í Speglinu.