Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að tillögur átakshóps um húsnæðismál séu góður efniviður inn í kjaraviðræður. „Við höfum haldið því fram að húsnæðismálin séu ein af stærstu málunum, stærstu lyklunum til að leysa kjaradeilur. Það er náttúrlega það sem kemur helst við pyngjuna hjá fólki og hefur haft mikil áhrif á ákveðna hópa, það er að segja síhækkandi leiguverð.“
Átakshópur um aukið framboð á íbúðum og aðgerðir til að bæta stöðuna á húsnæðismarkaði leggur til að sveitarfélög og ríkið auki fjárveitingar til stofnframlaga vegna uppbyggingar í almenna húsnæðiskerfinu og að tekjumörk verði hækkuð. Einnig er lagt til að óhagnaðardrifin húsnæðisfélög verði efld og skýrari reglur settar á leigumarkaði.
Rætt var við Drífu í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum. Hún segir að margar af tillögunum séu til bóta, og þá sérstaklega fyrir fólk sem er verr statt á húsnæðismarkaði. „Við höfum sagt það að launahækkanir undanfarinna ára hafi brunnið upp á báli húsnæðismarkaðarins og þarna er töluvert úr að moða til að vinna gegn því og taka á þessu neyðarástandi sem er í borginni. Að fólk sé hér í ósamþykktu iðnaðarhúsnæði, og jafnvel börn, sem náttúrlega gengur ekki.“