Húsnæðiskostnaður er risastórt kjaramál, að dómi Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra. Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar hafa lagt til að fjöldi íbúða sem byggður verður á vegum Bjargs íbúðafélags verði tvöfaldaður, samkvæmt heimildum fréttastofu. Stefnt hefur verið að því að byggja 300 íbúðir á ári, tímabilið 2019 til 2022, samtals 900 íbúðir.
Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar vilja hins vegar að byggðar verði 600 íbúðir á ári og að fjöldinn verði 1.800 samtals til ársins 2022. Bjarg var stofnað af ASÍ og BSRB og nýtur stofnframlaga frá ríkinu. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í Kastljósi í kvöld að ákvörðun um slíkt yrði ekki tekin í beinni útsendingu. „En nú liggur það fyrir og var rætt á samráðsfundi stjórnvalda með aðilum vinnumarkaðarins í dag. Við fórum yfir allar þessar tillögur og þær heyra undir mismunandi stofnanir og ráðuneyti, ríki sveitarfélög og aðila vinnumarkaðarins.“
Nú þurfi að gera áætlanir um það hversu hratt hægt sé að vinna að tillögunum, það sé næsta skref. Þar á forsætisráðherra við tillögur átakshóps ríkisstjórnarinnar um úrbætur í húsnæðismálum sem kynntar voru í dag. Fram kom í sjónvarpsfréttum að Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Bjarni Benediktsson, væru þeirrar skoðunar að tillögurnar væru gott innlegg í kjaraviðræður.
Skoðuðu sérstaklega skort á íbúðum
Slæmt ástand hefur verið á húsnæðismarkaði undanfarin ár, húsaleiga há og framboð ekki nægilegt. Katrín segir að átakshópurinn hafi sérstaklega skoðað þann vanda sem lítið framboð er. „Það kemur á daginn að við erum auðvitað með töluvert mikla uppsafnaða þörf á húsnæðismarkaði. Það er töluvert mikið í pípunum líka. Þannig að þegar þau voru búin að greina vandann, það er að segja hver skorturinn er og hvað er verið að byggja þá liggur fyrir að til viðbótar við það sem er verið að byggja, því það er verið að byggja mjög mikið, það eru einhverjar 10.000 íbúðir í pípunum á næstu 3 árum. Þa vantar samt 2.000 íbúðir til ársins 2022.“
Á von á árangri á næstu misserum
Fjöldi fólks hér á landi, börn og fullorðnir, býr í ósamþykktu iðnaðarhúsnæði. Katrín segir að tillögur hópsins skili árangri, fyrir þann hóp, á næstu misserum svo fremi sem að allir sem að málum komi taki þær til sín og vinni úr þeim.
Verkalýðshreyfingin hefur lagt mikla áherslu á húsnæðismálin nú í aðdraganda kjarasamninga, enda hafi hækkandi leiguverð mikil áhrif á afkomu fólks. „Við vitum það öll að húsnæðiskostnaður er risastórt kjaramál og það hefur auðvitað áhrif á ráðstöfunartekjur fólks í þessu landi ef húsnæðiskostnaður er mjög hár og íþyngjandi,“ segir Katrín. Verkalýðshreyfingin hafi bent á það að það sé ekki síst tekjulægsta fólkið sem þurfi að verja sífellt hærra hlutfalli af sínum ráðstöfunartekjum á óöruggum leikumarkaði. „Þannig að þetta er auðvitað risastórt lífskjaramál.“
Meðal niðurstaðna átakshópsins voru að litlar íbúðir hafi verið byggðar á dýrum svæðum og því kosti þær mikið. Sömuleiðis hafi stórar íbúðir verið byggðar á ódýrari svæðum en þær kosti einnig mikið. Ekkert af þessu henti því lágtekjufólki.