Húsleit hjá fyrrverandi kosningastjóra Trumps

09.08.2017 - 15:05
epa05794362 (FILE) - Paul Manafort (C), then campaign advisor for US President Donald J. Trump, talks with supporters and staff after a speech by Trump on the eve of his Indiana primary victory in New York, New York, USA, 03 May 2016 (reissued 15 February
 Mynd: EPA
Bandaríska alríkislögreglan, FBI, hefur gert húsleit heima hjá Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Donalds Trumps, vegna rannsóknar á afskiptum Rússa af forsetakosningunum í fyrra. Þetta er fullyrt í frétt bandaríska stórblaðsins Washington Post.

Samkvæmt frétt blaðsins mættu lögreglumenn á heimili Manaforts snemma að morgni 26. júlí með húsleitarheimild og lögðu hald á skjöl og fleira. Þetta er haft eftir heimildarmönnum sem þekkja til rannsóknar málsins. Húsleitin fór fram daginn eftir að Manafort hafði sjálfviljugur hitt starfsfólk leyniþjónustunefndar öldungadeildar þingsins í tengslum við rannsókn á tengslum Rússa við kosningarnar.

Manafort hefur afhent þingnefndum gögn um Rússatengslin, en Washington Post segir að húsleitarheimildin gefi til kynna að rannsakendur kunni að hafa haldið því fram við alríkisdómara að þeir hefðu ástæðu til að ætla að Manafort væri ekki treystandi til að afhenda öll gögn. Tilgangur húsleitarinnar kunni einnig að hafa verið að senda kosningastjóranum fyrrverandi skilaboð um að hann gæti ekki búist við að hann fengi sérmeðferð hjá rannsakendum.

Ekki er vitað hvort lögregla fann gögn á heimili Manaforts sem eiga eftir að nýtast við rannsóknina, en einhver af þeim gögnum sem fundust mun hann þegar hafa afhent þingnefndum. Hermt er að þar á meðal séu minnispunktar Manaforts frá fundi með Donald Trump yngri, syni forsetans, og rússneskum lögmanni í Trump-turninum í New York í júní í fyrra.

Samkvæmt tölvupóstsamskiptum sem komu upp á yfirborðið fyrr í sumar samþykkti Trump yngri að hitta rússneska lögmanninn, og bauð Manafort á fundinn, eftir að Trump yngri var lofað að rússneski lögmaðurinn myndi færa fram upplýsingar sem væru skaðlegar Hillary Clinton, mótframbjóðanda föður hans.

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV