Húsið sem hýsa átti Lækningaminjasafnið á Seltjarnarnesi liggur undir skemmdum. Átta ár eru síðan það var gert fokhelt en Seltjarnarnesbær hætti við að nota það undir lækningaminjar. Enn þá hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvaða starfsemi verður í húsinu. Ásdís Helga Ágústsdóttir og Sólveig Berg hjá arkitektastofunni Yrki hönnuðu húsið. Þær segja sárt að sjá húsið drabbast niður. 

Fá sting í hjartað

Þið sögðuð áðan að þið kæmuð helst aldrei hingað. Af hverju? „Það er bara, maður fær sting í hjartað bara að sjá hvernig húsið er orðið, hvernig hugsað er lítið um það. Okkur þykir svakalega vænt um þetta verkefni.“ 

Menntamálaráðherra, bæjarstjórinn á Seltjarnarnesi, fulltrúar Læknafélags Íslands, Læknafélags Reykjavíkur og Þjóðminjasafns Íslands undirrituðu samning um lækningaminjasafn á Seltjarnarnesi árið 2007. Fyrsta skóflustunga var tekin árið 2008 og húsið var gert fokhelt árið 2010.

„Og það var steypt upp og klætt að utan og settir gluggar í en það er ekkert búið að gera innandyra. Það er enginn hiti eða rafmagn á húsinu þannig að við höfum áhyggjur af því að nú eru orðin átta ár síðan þessum fasa lauk. Og við höfum auðvitað áhyggjur af því að það smá saman skemmist húsið þegar það er ekki hitað upp og engin starfsemi og enginn sem hugsar um það, þá bara eyðileggst það smá saman.“ 

Seltjarnarnesbær hætti við lækningaminjasafnið

Seltjarnarnesbær tilkynnti mennta- og menningarmálaráðherra í lok árs 2012 að bæjarstjórnin hefði ekki áhuga á að endurnýja samninginn og óskaði eftir því að ráðuneytið tæki yfir rekstur lækningaminjasafnsins frá 1. janúar 2013. Bærinn óskaði einnig eftir því að ræða við ráðuneytið um nýtt hlutverk fyrir bygginguna.

Enn þá hefur ekki náðst samkomulag um nýtingu hússins en munir lækningaminjasafnsins hafa verið afhentir Þjóðminjasafninu. Ásdís og Sólveig hönnuðu húsið með læknaminjar í huga. 

„Það hefði verið mjög gaman ef þetta hefði klárast, þá hefði orðið til þessi þríhyrningur, fyrst bústaður læknis á Íslandi, og Lyfjafræðisafnið og síðan þetta lækningaminjasafn. Þetta hefði verið svona falleg umgjörð um lækningar á Íslandi.“

Nýja húsið stendur við Nesstofu þar sem Bjarni Pálsson, fyrsti landlæknir Íslands, settist að með fjölskyldu sinni árið 1763 og bjó þar til dauðadags.

Húsið vel staðsett fyrir útivistarfólk

Ásdís og Sólveig segja að húsið hafi mikla möguleika. Það hafi verið mikil vonbrigði að ekki varð úr áætlunum.  

„Okkur fannst líka að þarna var ákveðið tækifæri sem er að glatast vegna þess að þetta er auðvitað starfsemi sem getur nýst bænum bæði varðandi það að fá hingað ferðamenn eða gesti, íslenska gesti hingað í safnið. Þar að auki er þetta mjög vel staðsett miðað við alla þá útivist sem er hérna á svæðinu og hefði geta nýst þannig sem viðkomustaður eða miðstöð fyrir þá sem eru að hreyfa sig hérna.“

Seltjarnarnesið er lítið og lágt og því ákváðu þær að hafa húsið lágreist í anda þess sem er í kring. Það hefur vakið athygli fyrir það hve vel það lagar sig að umhverfinu.
 
„Þannig að það myndi ekki skyggja á þennan frábæra bústað, lækningabústaðinn, það var líka hugmyndin. Þetta er tekið svolítið inn í hæðina og svo líka bara tækifærin að tvinna þetta saman við útiveruna. Þú getur farið upp á þakið, sest þar niður og horft hérna yfir svæðið og svo er auðvitað Grótta hérna til hliðar. Þú getur horft á það. Við unnum eiginlega samkeppnina á því hvað það var lágreist og flatt í landslaginu.“  

Áhugi á húsinu

Ásdís og Sólveig eru stoltar af verkefninu. Erlend tímarit höfðu áhuga á að fjalla um húsið og til stóð að veita þeim viðurkenningu fyrir það.  

„En vegna þess að það er ekki búið að klára það þá hætta allir við. Þannig auðsjáanlega hefur þetta vakið athygli og vekur enn athygli. En það sem er auðvitað sárast að sjá núna að það þarf að fara að taka til, þörf á einhverju viðhaldi hérna. Þetta er farið að láta svolítið á sjá. Ég vona bara að það fari að gerast fljótlega.“

„Það þurfa ekki að líða mörg ár í viðbót þangað til að það er ekki hægt að snúa þessu við.“ Og þá eru náttúrlega farnir miklir fjármunir í súginn? „Já, vissulega það er búið að leggja í heilmikinn kostnað hérna og það tapast þá bara og það er náttúrulega bara sorglegt.“ 

„Ég held að það hafi verið eitthvað um 200 milljónir sem hafa farið í þetta nú þegar. Þannig að það er mjög slæmt að það skuli ekki vera hugsað betur um það en þetta þetta eru miklir peningar.“