Hundruð milljarða eru enn inni í þrotabúum gömlu bankanna, nú tíu árum frá hruni. Enn eru einhver ár í að uppgjöri búanna ljúki.
Í dag, 7. október, eru nákvæmlega tíu ár síðan Fjármálaeftirlitið tók Landsbankann yfir. Þegar bankarnir þrír féllu voru skipaðar sérstakar skilanefndir og slitastjórnir sem höfðu það verkefni að gera upp þrotabú bankanna. Þessar nefndir hafa lokið störfum, en þegar nauðasamningum lauk færðust íslenskar krónueignir yfir til ríkisins en aðrar eignir voru færðar inn í þrjú félög sem stofnuð voru utan um eignir hvers banka. Og þau félög eru enn að störfum, þar á meðal LBI ehf. sem heldur utan um eignir gamla Landsbankans.
„Þetta er eignarhaldsfélag sem er eigu kröfuhafa gömlu bankanna sem eru að mestu erlendir sjóðir,“ segir Kolbeinn Árnason sem situr í stjórn LBI ehf. „Og starfsemin felst í því að reyna að koma þessum eignum yfir í peninga og greiða þá til þessara eigenda og á endanum að slíta félaginu ef allt gengur vel.“
Fáir starfsmenn
Kolbeinn segir að inni í LBI ehf. séu ennþá um 100 milljónir evra, sem nemur um 13 milljörðum króna. „Þar af er stærstur hlutinn fastur inni í þrotabúi Landsbankans í Lúxemborg og er fast þar vegna dómsmála sem eru í gangi í Frakklandi og á Spáni og varðar það félag.“
Vinna stjórnar þrotabúsins miði að því að klára þessi mál. Starfsmenn þess séu teljandi á fingrum annarrar handar.
„Ef við horfum á þessi dómsmál sem nú eru í gangi og ef við gerum ráð fyrir að þau fari öll alla leið í gegnum öll áfrýjunarstig, hvort sem það er hérlendis eða erlendis, þá er þetta kannski til 2020 eða 2022 sem þetta mun lifa,“ segir Kolbeinn.
Frá Kaupþingi ehf. sem heldur utan um eignir gamla Kaupþings, fengust þau svör að heildareignir félagsins í lok árs 2017 hafi numið rúmum 233 milljörðum íslenskra króna. Félagið er enn stærsti hluthafi Arion banka með tæplega þriðjungshlut. Áætlanir félagsins gera ráð fyrir að stærstum hluta eigna verði umbreytt í lausafé á næstu tveimur árum.
Og frá þrotabúi Glitnis fengust þær upplýsingar að frá því að nauðasamningur Glitnis var staðfestur árið 2015 hafi félagið greitt rúma 700 milljarða til kröfuhafa sinna. Vinna félagsins miði að því að selja þær fáu eignir sem eftir séu í félaginu og ljúka fjórum útistandandi dómsmálum. Samkvæmt nauðasamningi sé gert ráð fyrir að félagið sé starfandi til ársins 2025.