Flóra Íslands, blómplöntur og byrkningar, kom út í vikunni. Bókin er mikið stórvirki, risastór bók uppfull af fróðleik og listavel gerðum myndum. Hún byggir á áratugastarfi höfunda og er ítarlegasta rit sem hefur komið út um íslenskar plöntur. Hörður Kristinsson grasafræðingur er einn afkastamesti vísindamaður landsins á sviði grasafræði og er hann að vonum stoltur af sköpunarverkinu.
Flóra Íslands er eftir Hörð, listamanninn Jón Baldur Hlíðberg og Þóru Ellen Þórhallsdóttur, prófessor í grasafræði. Í bókinni er öllum 467 æðplöntutegundum íslensku flórunnar lýst ítarlega og litmynd eftir Jón Baldur fylgja hverri plöntu. Auk þess er fjallað um byggingu, lífsferla og þróun plantna. Útbreiðslukort fylgir hverri tegund.
Hörður ræddi blómin, starfið og bókina við Sunnu Valgerðardóttur á Morgunvaktinni á Rás 1. Spurður hvernig honum leið þegar hann fékk bókina í hendur segir Hörður: „Mér leið bara vel. Hún er kannski svolítið þung svo maður er ekkert mikið að grípa hana með sér í gönguferðir. Þá er betra að taka Plöntuhandbókina með sér og fletta upp í þessari þegar maður kemur heim.”
Hörður hefur skrifað um 150 greinar á sviði grasafræði og hann skrifaði einnig Plöntuhandbókina sem kom fyrst út árið 1986. Hún hefur verið endurútgefin margsinnis síðan. Hann segist ekki eiga neina uppáhaldsplöntu, það sé engin leið fyrir hann að gera upp á milli þeirra.
Litli bróðir fékk nöfnu að gjöf
Hörður er 81 árs í dag og hefur haft mikinn áhuga á plöntum stærstan hluta ævinnar. En það var nafna nýjasta sköpunarverksins, Flóra Íslands (1901) sem kom honum á sporið.
„Bróðir minn fékk bókina Flóra Íslands eftir Stefán Stefánsson, að gjöf. Hann var nú bara stráklingur þá og átti ekki auðvelt með að greina plöntur eftir bókinni, þannig að ég sem eldri bróðir var fenginn til að hjálpa honum. Ég smitaðist af þessu og fékk svona mikinn áhuga á plöntum í gegn um það að hjálpa honum að greina eftir Flóru Íslands.”
Viðtalið við Hörð má heyra í spilaranum hér að ofan.