Hundaþjálfari segir mikið um áróður á netinu um að fólk eigi ekki að beita hunda sína aga og að slíkur áróður sé mjög varasamur enda sé mjög mikilvægt að temja hunda vel.

Alaskan malamut hundur í Vestmannaeyjum beit eiganda sinn í andlit og hendur í vikunni svo töluverðir áverkar hlutust af og í vor bárust fréttir af því að hundur sömu tegundar hefði bitið dreng í andlitið svo sauma þurfti áttatíu spor. Ásta Dóra Ingadóttir, hundaþjálfari, segir að ábyrgð hundaræktenda sé mikil og að skapgerð hunda gangi í erfðir. Þá sé mikilvægt að gefa hegðun hunda gaum enda hafi margar viðvörunarbjöllur hringt áður en þeir ráðist á fólk. 

Þá segir Ásta mikilvægt að hundar viti að þeir eigi að gera eins og eigandinn segir en ekki öfugt. „Ef eigandinn er alltaf að elta vilja hundsins þá verður hundurinn bara smátt og smátt frekur og þegar hundar eru farnir að stjórna þá bíta þeir. Þegar hundar eru komnir á þennan stað að fara að ráðast á fólkið sitt og eru komnir í þessa stærð og þessa þyngd þá er þetta bara stórhættulegt. Fólk um allan heim, það er bara drepið heima hjá sér af hundunum sínum, og þegar hundur er að bíta heima hjá sér þá verður það oft verra en þegar hann er að bíta úti á götu því að þarna er þetta orðin spurning um virðingarstiga.“