„Það sérstaka við þessa dagbók er hversu hreinskilinn Ólafur er um sjálfan sig og aðra, meinhæðinn og fyndinn og magnaður stílisti. Hann lýsir þarna hlutum sem ég held að ég geti fullyrt að engar aðrar dagbækur frá þessu tímabili gera,“ segir Þorsteinn Vilhjálmsson, en hann annaðist útgáfu bókarinnar Hundakæti sem er bók vikunnar á Rás1.
Bókin Hundakæti, sem kom út nú fyrir jólin, hefur að geyma dagbækur náttúru- og þjóðfræðingsins Ólafs Davíðssonar frá námsárum hans í Menntaskólanum í Reykjavík, 1881 til 1884. Dagbækurnar voru gefnar út um miðja síðustu öld en þá töluvert ritskoðaðar, en ný útgáfa varpar óvæntu ljósi á samtíma Ólafs, ekki síst á ástir milli drengja. Dagbækurnar eru einstök heimild um líf og hugsunarhátt ungra menntamanna í Reykjavík og Kaupmannahöfn fyrr á tímum en um leið skemmtilestur þar sem menntahroki og kjaftasögur úr mjög svo stéttarskiptu bæjarlífinu koma við sögu.
Rætt var við Þorstein Vilhjálmsson, sjálfstætt starfandi fræðimann í klassískum fræðum, í Víðsjá um dagbækur Ólafs og hægt er að hlusta á spjallið sem og lestur úr bókinni í spilaranum hér að ofan.
Bókin var rædd freka í þættinum Bók vikunnar. Umsjón hafði Jóhannes Ólafsson og viðmælendur hans voru Brynja Hjálmsdóttir og Þorvaldur Kristinsson. Hlusta má á þáttinn í heild hér: