Keisaramörgæsir er heiti smásagnasafns sem inniheldur bæði langar og styttri sögur og telja gagnrýnendur Kiljunnar að höfundur geri virkilega vel í þeim lengri. Bókin er sú fyrsta frá höfundinum, Þórdísi Helgadóttur og segja gagnrýnendurnir alveg ljóst að hún eigi að halda áfram að skrifa.

Keisaramörgæsir kom út síðasta haust og er eins og áður segir fyrsta bók Þórdísar Helgadóttur sem hefur þó áður vakið athygli fyrir smásögur og ljóð. Í Keisaramörgæsum rekast á kunnuglegir hlutir og furður en þegar betur er að gáð reynast sumar furðurnar líka kunnuglegar. „Hér er teflt saman fantasíu og raunsæi á heillandi og kraftmikinn hátt,“ segir í kynningartexta um bókina. Kolbrún Bergþórsdóttir og Sigurður Valgeirsson fóru fögrum orðum um þessa frumraun Þórdísar.

Kolbrúnu Bergþórsdóttur líkaði mun betur við sögurnar í bókinni sem voru í lengri kantinum. „Mér finnst mjög áberandi að lengri sögurnar eru mun betri en þær styttri. Þórdís er mjög hugmyndarík, hún leikur sér með þjóðsagnaminni. Í einni sögunni, þá er hugmyndin svo góð, það er nefnilega tröll í íbúðinni þinni. Það fannst mér dásamlegt en þar fannst mér úrvinnslan hafa mátt vera betri. Önnur saga fjallar um fjöregg, þar er virkilega vel unnið en besta sagan heitir Leg og fjallar um fólk sem er saman í matarklúbbi. Þar tekst henni svo vel að draga fram eftirminnilegar persónur og sérstaklega forsprakka matarklúbbsins sem er gjörsamlega óþolandi týpa sem þarf að hafa alla þræði í hendi sér. Hann leggur línurnar fyrir matarklúbbinn,“ segir Kolbrún um vel heppnaðar smásögur Þórdísar og Egill Helgason tekur undir með henni og telur að sögunni Leg megi finna brjálæðislega skemmtilegt háð. 

Sigurður Valgeirsson var á sömu skoðun og Kolbrún um að lengri sögurnar væru skemmtilegri. „Fyrir mitt leyti var skemmtilegasta sagan þar sem mjólkandi móðir er á leið sinni til Amsterdam. Hún fer í H&M til að versla og misir sig aðeins, hver kannast ekki við það að kaupa aðeins of mikið. Mér finnst í gegnum bókina vera eins konar íhugun um meðal annars neysluhyggjuna og um það á hvaða leið mannsskepnan er. Það er svona heimsendafílingur í sumu í bókinni. Þetta er hugmyndaríkur höfundur, hún hefur gaman að þessu. Ég spái vel fyrir henni sem höfundi,“ segir Sigurður Valgeirsson. Sigurður kemur inn á stíl Þórdísar þar sem hún leikur sér að því að tvinna saman raunsæi og fantasíu og segir Þórdísi hafa sérstaka rödd í íslenskri bókmenntaflóru. „Hún á að halda áfram að skrifa, það er alveg ljóst,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir að lokum.