„Katrínarsaga er í senn snöfurleg skáldsaga, kröftugt uppgjör og greinandi þjóðfélagsádeila sem skrifuð er af skörpu innsæi og yfirsýn á samhengi hlutanna.“ Steinunn Inga Óttarsdóttir, bókmenntagagnrýnandi Víðsjár, fjallar um Katrínarsögu eftir Halldóru Thoroddsen.
Steinunn Inga Óttarsdóttir skrifar:
Hálf öld er nú liðin frá 68-byltingunni svonefndu, þegar ungt fólk víða um heim tók að efast um ríkjandi valdakerfi, stöðnuð kynhlutverk, stríðsrekstur og kapítalisma. Íslendingar fóru ekki varhluta af fjörinu, hér spruttu fram hippar með stæla og kröfðust friðar og samneyslu. Hugmyndir hippanna ollu þjóðfélagslegu umróti og breytingum sem voru ógn við innmúrað samfélag skriffinna og embættismanna sem stóð vörð um gömul gildi. Þær leiddu einnig til breytinga í vísindum, bókmenntum og listum. Múrar voru brotnir, orðræðan var greind og valdið afhjúpað.
Kláraðist dópið?
En hvað gerðist eftir 68? Kulnaði eldmóðurinn, dvínaði fjörið, kláraðist dópið? Margir misstu móðinn og stukku á hamstrahjólið sem þeir höfðu áður fyrirlitið svo mjög, fengu sér fasta vinnu og fóru að byggja; sumar frelsishetjurnar hreinlega vesluðust upp og dóu; örfáar börðust áfram í bökkum og veifuðu heimagerðum mótmælaspjöldum. En besta bitann fengu þeir sem biðu í fylgsnum sínum og skreiddust út þegar embætti losnuðu og bitlingar buðust.
Hví blómstruðu ekki fagrar hugsjónir um frelsi og kærleika öllum til handa hér í fámenninu? Í nýrri skáldsögu Halldóru Thoroddsen, Katrínarsögu, er skýringanna leitað og tímabilinu lýst úr innsta hring, með augum Katrínar sem vill öllum vel.
Ævafornt tilfinningakerfi
Katrín og vinir hennar sitja löngum stundum í kommúnunni á dýnu með pípustert og kryfja samfélagið. Allt er viðrað, rætt og greint; vinnan, eignarrétturinn, hagkerfið, borgarinn; og allir fá að vera með. Samfélagið er kyrrstætt og íhaldssamt og breytinga er vissulega þörf. Feðraveldið er allsráðandi og stúdentar gagnrýna kerfið, skólinn hefur alltof lengið troðið geldum formúlum, karllægri mannkynssögu og fornbókmenntum ofan í nemendur með ævagamalli agastjórnun og geldri einkunnagjöf. Kvenfrelsi var krafa tímans, kynlífið skreið út úr hjónaherberginu og pillan breytti öllu þótt „ævafornt tilfinningakerfi“ Íslendinga væri kannski ekki alveg tilbúið í frjálsar ástir.
Katrín og hippavinir hennar vildu breyta þjóðfélaginu innan frá með því að sniðganga eignarhald, draga úr gerviþörfum, hætta að níðast á móður jörð og hjálpast að í stað þess að keppa hver við annan. Það var allt gott og blessað en strandaði því miður oft á framkvæmdinni. Og kannski fólst upphafið að hnignun hippanna í því að þeir vissu hverju þeir vildu hafna en höfðu ekki hugmynd um hvað þeir vildu fá í staðinn.
Frelsisbylting auðeigenda
Katrín er sannkallað blómabarn, „grátmúr“ og „blæösp“, hún lendir í ýmsu, m.a. lögregluofbeldi og ofsóknum, en heldur þó alltaf fast í hugsjónir sínar. Vinir hennar eru skrautlegt lið, t.d. Gummi, sem heldur því fram að vinnudýrkun sé lúthersk ofsatrú sem boðuð sé til að göfga neysluna, hinn grátbroslegi Baldur Marsbúi og þær Freyja, með reykelsi og Hare Krishna-gaul á fóninum, og gjörningalistakonan Mana, sem innhverf og þögul plokkar orma úr fiski úti á Granda. Að ógleymdum Elmari sem var dæmdur fyrir morð sem vitað var að hann hafði ekki framið og er þar vísað í frægt sakamál sögutímans. Lögreglan var á þessum tíma undir hælnum á pólitíkusum sem létu hlera síma fólks, greiddu götu flokksbræðra og plöntuðu þeim á réttum stöðum í samfélaginu til að tryggja stöðu sína.
Í Katrínarsögu er fast skotið á auðsöfnun og nýfrjálshyggju. Boðskap sögunnar er komið á framfæri af kaldhæðnum og lífreyndum sögumanni sem ávarpar lesanda í upphafi bókar, stillir upp sviðsmyndinni og lýsir því meðal annars hvernig samanlagður ótti heillar kynslóðar var bæði haminn og efldur með stanslaust yfirvofandi kjarnorkuvá og köldu stríði. Samhengi hlutanna verður skýrt þegar horft er í gegnum hismið og hulunni svipt af kjaftæðinu. Frjálshyggjunni, sem Einar Már Jónsson líkti forðum svo skemmtilega við frjálsan mink í frjálsu hænsnabúi í Bréfi til Maríu á því herrans ári 2007, er lýst með nístandi íroníu í Katrínarsögu:
„Þeir eru mættir til leiks með þaulundirbúna frelsisbyltingu auðeigenda, boða frelsi undan flestum áunnum réttindum sem tekið hefur meira en öld að berjast fyrir. Verkalýðsfélög eru teikn um helsi sem skyldar frjálst fólk til að greiða aðildargjöld. Í fjölmiðlum hljómar ný goðsaga úr vestri með nýjum orðaforða og tungutaki. Meira að segja barnaskólinn sem Katrín kennir við sér sig knúinn til að endurrita kjörorð sitt samkvæmt kalli tímans. Að stuðla að hamingju og þroska gengur ekki lengur. Skólanefndin breytir kjörorðinu við almennan fögnuð kennarafundar með aðeins einu mótatkvæði: „Marksækið nám, fjárfesting í framtíð“.
Splunkuný fjarvídd
Katrínarsaga er í senn snöfurleg skáldsaga, kröftugt uppgjör og greinandi þjóðfélagsádeila sem skrifuð er af skörpu innsæi og yfirsýn á samhengi hlutanna.
Hipparnir mótmæltu lifnaðarháttum foreldra sinna, innantómum neysludraumi þeirra um vísitölu, heimilistæki og metorðastiga og vildu bara ást og frið. Þetta var „blessunarlega blóðlaus uppreisn“ en kom þó ýmsu til leiðar. Til dæmis voru stríð stöðvuð, skápar opnaðir og loftað út úr karlaklefanum eins og það er svo skemmtilega orðað, og það var sannarlega kominn tími til. Það er þó ekki sérlega trúlegt sem ýjað er að í bókarlok að gömlu hipparnir taki sig nú til og skapi nýjan heim.
En kjarni hugsjóna hippanna á sem best við nú á dögum. Er ekki manneskjan sífellt að leita langt yfir skammt að því sama? Í „splunkunýrri fjarvídd“ sér söguhetjan Katrín hvernig við öll spriklum í spennitreyjunum, grunlaus og værukær. Enn er almenningur valdalaus og biður ekki um annað en frið og réttlæti. Er það til of mikils mælst?