Hópferðabílstjórar komu saman í kvöld til að fara yfir stöðu mála í aðdraganda kjarasamninga og til að stilla saman strengi sína. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, stýrði fundinum. Hún segir grunnlaun hópferðabílstjóra skelfilega lág. Fundurinn var haldinn í húsakynnum Eflingar og þar var fullur salur.
„Þeir þurfa að vinna til dæmis alveg gríðarlega langan vinnudag og rosalega margar stundir í mánuði til þess að ná að koma launum sínum þangað að þeir geti lifað á þeim. Grunnlaun þeirra eru skelfilega lág. Þetta er hópur sem ber mikla ábyrgð og sinnir mikilvægu hlutverki í íslensku hagkerfi. Það hefur að því leyti hallað verulega á þann hóp,“ sagði Sólveig í spjalli við Jóhann Hlíðar Harðarson, fréttamann, í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum klukkan 22:00.
Fram kom á fundinum að helstu ástæður með óánægju og að laun hefðu ekki hækkað nægilega væru að persónuafsláttur hefði ekki hækkað í kjarasamningum 2015 og að barnabætur hafi verið rýrðar. Verða þetta þungir áherslupunktar í kjaraviðræðum í vetur?
„Já, ég held að það sé alveg ljóst að við munum sækja fram þar af miklum þunga. Skattbyrðin á verkafólk er fáránleg og það er algjörlega óþolandi að við séum látin rogast um, ekki aðeins með það að halda hagvextinum gangandi með allri okkar vinnu, heldur séum líka látin bera skattkerfið á bakinu.“
Formaðurinn hefur að undanförnu haldið fundi með félagsmönnum og segir þá hafa gengið vel. Þau séu komin á gott flug og ætli að halda áfram.