Í tilefni af bókmenntahátíð Reykjavíkur er hingað komið krikket-lið breskra rithöfunda sem lék við íslenska krikketspilara í Hljómskálagarðinum. Rithöfundurinn og sagnfræðingurinn Tom Holland var svo innblásinn af för sinni til Íslands að hann hóf að yrkja dróttkvæði.

„Við lékum gegn Íslendingum og ég tapaði og var úr leik í fyrsta bolta,“ segir Tom Holland í viðtali við Kiljuna. „Ég hefði átt að slá boltann þegar hann skoppaði á jörðinni en tókst það ekki. Ég lýsti endurkomu minni frá þessum hræðilega ósigri með með því að hrafnar gæddu sér á blóði mínu og úlfar rifu í sig holdið. Því í krikketleik gegn Íslandi fannst mér dróttkvæði vera viðeigandi.“

Krikket í Egils sögu

Holland telur sig hafa fundið vísanir í krikket í íslenskum fornsögum, nánar tiltekið í Egils sögu. „Ég fann vísun í leik með kylfu og bolta eins og í krikket, þannig mér fannst það ekki of langt seilst.“ Hann túlkaði það sem varnaorð til breska liðsins því í sögunni fer afar illa og Egill klýfur höfuð andstæðingsins með öxi, og í eftirleiknum deyja sjö manns. Það gæti því verið stórhættulegt að leika krikket við Íslendinga. „En til allrar gæfu urðum við til frásagnar.“

Tom Holland skrifar bækur um snemm-miðaldir og hefur skrifað um Róm og Grikkland til forna. Þá hefur hann skrifað um tilkomu kristni í Evrópu á 10. og 11. öld, en þar hefur Ísland borið á góma og minnst á kristnitökuna. „Það er mér því mikið ánægjuefni að vera kominn hingað og geta farið til Þingvalla,“ segir Holland.

„Við erum nógu góðir“

Rithöfundurinn Sebastian Faulks segir hugmyndina um krikketlið rithöfunda aðallega snúast um það að leika krikket á fallegum stöðum. Þeir fara víða um England og leikja gegn félagsliðum og smábæjum og hafa gaman að. En eru þeir góðir? „Við erum á pari við gott smábæjarlið eða lélegt félagslið,“ segir Sebastian. „Með öðrum orðum, við erum nógu góðir.“ Sebistan segir að það taki líklega um 20 ár, af því að spila fimm sinnum í viku, til að skilja töfra krikketsins. En hann fullyrðir að eins og skák sé æðsta borðspilið, þá sé krikket æðsti knattleikurinn. „Því það eru svo mörg taktíst afbrigði og möguleikarnir eru svo margir, leikurinn er afar flókinn.“

Margir sökkva sér djúpt ofan í krikket, ekki bara leikinn sjálfan heldur allt sem honum fylgir. Sebastian segist dreyma krikket flestar nætur og hugsa um það mjög mikið. „Það sem leiði helst hugann að yfir daginn er dauðinn, þá næst krikket og svo kynlíf þar á eftir, í þessari röð.“