Fleiri brjóta heilann um málshættina en plastmagnið sem fylgir páskaeggjum. Markaðsstjóri Freyju segir að verðsamkeppni geri það að verkum að plast sé notað frekar en pappaumbúðir.

Nú er tæp vika í páskadag og flestir í óðaönn að undirbúa páskahátíðina, meðal annars með því að versla sér páskaegg. Flestir velta fyrir sér hvaða tegund af páskaeggi eigi að verða fyrir valinu en færri velta fyrir sér kolefnissporinu af einu páskaeggi. 

Velta kolefnissporinu ekki fyrir sér

Hefur þú velt fyrir þér kolefnissporinu sem verður af einu páskaeggi? „Nei, auðvitað á maður að pæla í því,“ segir Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir.

 „Ég er ekkert að pæla í því. Innihaldið skiptir meira máli. Hitt er bara seinni tíma vandamál,“ segir Helga Karlsdóttir.

Hvað eruð þið að kaupa mörg páskaegg?  „Við ætlum bara að kaupa fjögur núna. Það verður að nægja í ár. Svo gefum við barnabörnunum bara eitthvað sem þau borða ekki eins og vatnssull í kassa eða eitthvað,“ segir Margrét F. Sigurðardóttir. En hafiði velt fyrir ykkur kolefnissporinu sem verður að einu svona eggi?  „Nei alls ekki nóg,“ segir Ólafur Þór Jónsson.  „Ég hef nú ekki hugsað út í það einu sinni,“ segir Margrét F. jafnframt.

Samkeppni valdi því að ekki sé hægt að nota pappaumbúðir

Fréttastofa keypti þrjú páskaegg frá þremur framleiðendum. Þau eru öll svipuð að stærð. Við fyrstu sýn virðist vera minnst plast í Nóa Sírus egginu. En til hvers er sælgæti inn í egginu í umbúðum?  „Það er hreinlega bara gert til að vernda súkkulaðið inn í egginu og gæðið í súkkulaðinu,“ segir Pétur Thor Gunnarsson, markaðsstjóri Freyju

En af hverju er notið þið ekki pappaumbúðir?  „Góð spurning. Pappaumbúðir eru dýrar. Það myndi hækka verð töluvert á vörum okkar út í verslunum, samkeppnin milli framleiðanda er gríðarleg. Verðsamkeppnin er mikil. Það er helsta ástæðan fyrir því að það sé ekki hreinlega allt í pappírsumbúðum,“ Segir Pétur Thor jafnframt.