Í lok júní 1942 lagði skipalestin PQ-17 upp frá Hvalfirði og tók stefnuna norður Grænlandssund og síðan út á Norðuríshafið. Ferðinni var heitið til borgarinnar Arkhangelsk við Hvítahafið rússneska.


Illugi Jökulsson skrifar:

Í lestinni voru rúmlega 30 fulllestuð kaupskip sem áttu að færa Rauða hernum í Sovétríkjunum hergögn og vistir frá Bandaríkjamönnum og Bretum til nota í því ógurlega stríði við hinn þýska her Hitlers sem þá stóð sem hæst. Innrás Þýskalands í Sovétríkin hafði hafist árið áður og nú stóð fyrir dyrum mikil orrusta um borgina Stalíngrad.

Meðal skipverja á kaupskipunum voru að öllum líkindum sex Íslendingar. Á bandaríska skipinu Ironclad voru fjórir hásetar, Albert Sigurðsson, Guðbjörn E. Guðjónsson, Magnús Sigurðsson og Freysteinn Guðmundur Hannesson. Tveir íslenskir hásetar munu og hafa verið á skipinu Troubadour en enginn virðist þó vita nöfn þeirra.

Þjóðverjar lögðu allt kapp á að stöðva ferð skipalestarinnar og höfðu m.a. kvatt út orrustuskipið Tirpitz sem talið var hið öflugasta í heimi um þessar mundir. Ótti bresku flotastjórnarinnar við Tirpitz var svo mikill að á miðri leið var PQ-17 tvístrað og kaupskipin urðu þá auðveld bráð fyrir flugvélar og kafbáta Þjóðverja. Flest kaupskipanna lentu í miklum raunum.

Fyrir síðustu jól kom út bókin PQ-17 sem byggð er á endurminningum Alberts Sigurðssonar frá þessari siglingu sem Kolbrún dóttir hans hafði í fórum sínum. Þar er lýst á merkilegan hátt siglingunni hættulegu og síðan vetrarlangri vist í Sovétríkjunum.

En fleiri frásagnir frá þessari háskasiglingu eru til og í nýlegum þætti af Frjálsum höndum las Illugi Jökulsson úr frásögn bandaríska skotliðans Charles Ulrich sem bitist í Sjómannablaðinu Víkingi 1960.

Hann var á kaupskipinu Washington sem var eitt þeirra er lögðu upp frá Hvalfirði en var skotið niður og áhöfnin þurfti svo að þola ægilegar hörmungar í björgunarbát og síðan á rússnesku eyjunum sem kallast í einu lagi Novaya Zemlya. Þrátt fyrir að þetta væri að sumarlagi var þetta svo norðarlega að menn hrundu niður úr vosbúð, kulda og hungri.

Hér að ofan má hlýða á þáttinn.