Leiksýningin Kæra Jelena, á litla sviði Borgarleikhússins, er ágætis kennslustund og áminning fyrir íslenskt samfélag, segir María Kristjánsdóttir gagnrýnandi.
María Kristjánsdóttir skrifar:
Föstudaginn 12. apríl var frumsýnt á litla sviði Borgarleikhússins leikritið Kæra Jelena eftir Ljudmilu Razumovskaju í þýðingu Ingibjargar heitinnar Haraldsdóttur og dóttur hennar Kristínar Eiríksdóttur. Kvennaval er einnig við listræna stjórn. Leikstjóri er Unnur Ösp Stefánsdóttir, leikmynd og búninga skapar Filippia Elísdóttir og dramatúrg er Hrafnhildur Hagalín.
Í verkinu, sem er frá 1981 og gerist í fyrrum Sovétríkjunum, segir frá kennslukonunni Jelenu sem fær á afmælisdegi heimsókn fjögurra menntaskólanemenda sinna.
Kristín Eiríksdóttir hefur strikað úr verkinu og breytt orðalagi á upprunalegri þýðingu móður sinnar og fært hana þannig lipurlega nær okkur í tíma og rúmi. Ekki er um beina staðfærslu að ræða. En natúralískt verkið, sem upprunalega hafði fyrst og fremst það gildi að vera nokkurs konar fyrirboði um það hvaða öfl tóku yfir við fall Sovétríkjanna, verður þó á litla sviðinu næstum því rammíslenskur veruleiki.
Áhorfendum er raðað í salnum í hring um íbúð Jelenu, en fyrir aftan okkur er innkoma í íbúðina og hún teygir sig á stöku stað aftur fyrir okkur líka. Ég er nokkuð efins um að þetta hafi verið rétt ákvörðun. Nándin sem leikstjóri og myndhöfundur vilja skapa verður fullmikil, þröngt sviðið takmarkar hreyfingar, áhrifamátt og stöðu leikara í átökum og áhorfandi missir of oft fókusinn á það sem á að vera gerast innra með persónunum þegar leikarar snúa sér frá honum. Ef til vill má líka skrifa ákveðna vöntun á ákjósanlegu hljómfalli í sýningunni á þessa ákvörðun.
En hvað sem því líður þá hefur Jelena, leikin af Halldóru Geirharðsdóttur, undirbúið rólega kvöldstund og komið sér vel fyrir þegar barið er að dyrum og inn ryðjast nemendurnir fjórir með þeim hávaðasömu gleðilátum sem ungt fólk er dæmt í dag til að sýna á öllum viðburðum þar sem það er í öndvegi, svo sem við prófútskriftir og í hæfileikakeppnum. En nú eru þau Valdi, Lilja, Pétur og Viktor að fagna afmæli kennslukonunnar sinnar og bera henni blóm og gjafir. Hin einmana Jelena verður, á mjög svo fallegan hátt, yfirkomin af gleði, en brátt hverfur sú gleði því annað vakir fyrir gestunum.
Halldóra sýnir okkur í fremur hófstilltum leik og með skýru látæði gamaldags kennslukonu sem hefur haldið nemendum í skefjum með forræðishyggju og innantómum frösum um hugrekki, heiðarleika og siðgæði. Þegar skerst í odda milli hennar og nemenda nægir þessi túlkun hins vegar ekki, því það vantar hið auðsæranlega, viðkvæma sem fautar nærast og blása sig út á. En þá flyst líka aðaláherslan í verkinu frá Jelenu og yfir á primus mótor sýningarinnar, Valda, sem leikinn er af leiklistarnemanum Aroni Má Ólafssyni. Hann á ýmislegt eftir að læra í líkamsbeitingu en tekst samt að skapa persónu sem undir sakleysislegu yfirbragði geymir siðleysi og mannfyrirlitningu og draga upp fyrir okkur hryllingsmynd af manni; nánast líkamna gildismat ákveðinnar hagfræðikenningar sem leikið hefur okkur og umheiminn grátt. Hann er bara mættur, í kórréttum búningi, yfirstéttardekurdrengurinn sem við þekkjum svo vel. Sá sem allt hefur fengið upp í hendurnar og mun fá. Sá sem á sér aðeins eitt gildi, peninga og þau völd sem þeim fylgja. Sá sem í sjálfhverfu sinni telur sig þess umkominn að gera tilraunir með líf annarra enda virðir hann þá einskis.
Í stað þess að í sviðsetningunni sé dregin upp mynd af átökum milli tveggja kynslóða, byggð sé upp hægt og rólega lævísleg, skipulögð, miskunnarlaus árás á kennslukonuna, hinn gamla tíma, og niðurbrot hans, eins og verkið býður við fyrsta lestur svo augljóslega upp á, þá fáum við í reynd öðru framar að sjá afleiðingar af hegðun siðblindra svokallaðra „leiðtoga“ í líki Valda. Hvert þeir geta leitt þá sem ekki hugsa sjálfir, þá sem álíta forréttindastöðu þeirra eftirsóknaverða og elta þá í blindni.
Sýningin er því ágætis kennslustund og áminning fyrir samfélag okkar sem fyrir skömmu lét slíka drengi og lífsgildi þeirra leiða sig nánast til glötunar. En virðist í dag of lítið hafa af því lært. Farið og horfist í augu við hryllinginn.