Algjört hrun siðmenningar er við sjóndeildarhringinn. Loftslagsbreytingar af mannavöldum geta leitt til meiri háttar náttúruhamfara og gereyðingar stórs hluta náttúrunnar. Þetta sagði náttúrufræðingurinn heimsþekkti David Attenborough á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem var sett í Póllandi í gær.

David Attenborough var valinn sem fulltrúi heimsbyggðarinnar, almennings á jörðinni, til þess að ávarpa sendinefndir frá nærri 200 ríkjum á loftslagsráðstefnunni í Katowice í Póllandi. Ráðstefnunni er ætlað að breyta fyrirheitum sem gefin voru á loftslagsráðstefnunni í París árið 2015 í raunverulegar og áþreifanlegar aðgerðir. Attenborough var falið að safna sögum almennings og koma áhyggjum þeirra á framfæri. Niðurstaðan er alveg skýr, segir hann. Fólk krefst þess að ráðamenn bregðist við og það strax. Vissulega krefjist það fórna en almenningur sé reiðubúinn að fylgja leiðtogum heimsbyggðarinnar í þeim erfiðu ákvörðunum sem verði að taka.

Gríðarlegt verkefni fyrir höndum

Nýjustu rannsóknir sýna að tuttugu heitustu ár sögunnar hafa öll orðið á síðustu tuttugu og tveimur árum. Fjögur heitustu ár frá því að mælingar hófust eru einmitt fjögur síðustu árin. Vísindamenn segja að hlýnun jarðar megi ekki verða umfram eina og hálfa gráðu. Ef það markmið eigi að nást þarf að fimmfalda aðgerðir í loftslagsmálum, að mati Sameinuðu þjóðanna. Og til þess að hlýnun jarðar verði ekki umfram þessa einu og hálfu gráðu þarf útblástur gróðurhúsalofttegunda að minnka um fjörutíu og fimm prósent, fyrir árið 2030. Nýjar rannsóknir sýna að eftir að útblástur koltvísýrings í heiminum stóð í stað í fjögur ár, er útblásturinn að aukast aftur. Það er því gríðarlegt verkefni fyrir höndum. 

Afstýra alsherjar umhverfisglundroða

António Guterrres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir að loftslagsbreytingar gerist mun hraðar en við getum brugðist við og vandinn verði því stöðugt meiri. Lífsnauðsynlegt sé að bregðast miklu ákveðnara við til að halda í við þær miklu loftslagsbreytingar sem nú eiga sér stað. Það verði að gerast áður en það verður of seint. Fyrir fjölmarga, segir Guterres, almenning, landsvæði og jafnvel heilu löndin er þetta spurning um líf og dauða. Guterres segir að lofstlagsráðstefnan nú sé afar mikilvæg og að á þessum tveimur vikum verði að nást samkomulag um raunverulegar aðgerðir. Það sé sameiginleg ábyrgð heimsbyggðarinnar að koma í veg fyrir alsherjar umhverfisglundroða á jörðinni.

Ef við getum það, geta aðrar þjóðir það einnig

Í aðdraganda ráðstefnunnar var Donald Trump forseti Bandaríkjanna með hefðbundnar yfirlýsingar og efasemdir um að loftslagsbreytingar væru af mannavöldum og ráðist var að sendinefnd Brasilíu undir nýjum forseta landsins, hægri popúlistans Jair Bolsonaro. Ricardo Navarro frá Vinum jarðarinnar í El Salvador segir að hættan sé fólgin í hægrisinnuðum popúlistum og afneiturum í loftslagsmálum sem grafi undan tilraunum til að bjarga jörðinni. Gegn slíku verði að veita öflugt viðnám. En það eru til ríki sem eru að standa sig framar vonum. Frank Bainimarama, forsætisráðherra á Fiji, segir að þar hafi verið ákveðið að ganga lengra en upphafleg markmið gerðu ráð fyrir. Ef við getum það, geta aðrar þjóðir það einnig, segir hann.

Grípa til harkalegra aðgerða og það strax

Alþjóðabankinn hefur tilkynnt að tvö hundruð milljörðum bandaríkjadala verði varið á næstu fimm árum til að aðstoða ríki heims við að grípa til aðgerða gegn loftslagsbreytingum. Í yfirlýsingu fjögurra fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Sameinuðu þjóðunum segir að það sé nauðsynlegt að grípa til harkalegra aðgerða og það strax. Lykilatriði sé að spyrna harkalega við fótunum á næstu tveimur árum. Annars geti farið illa. Á sama tíma hefur aldrei verið jafn langt bil á milli þess sem ríki heims segjast vera að gera í loftslagsmálum og þess sem vísindamenn almennt telja nauðsynlegt að gert verði.

Framtíð mannkyns og siðmenningar í húfi

David Attenborough segir að leiðtogar heims verði að leiða heimsbyggðina út úr þessum ógöngum. Framtíð mannkyns og siðmenningar sé í húfi.