Þrjár vikur tók að tengja hringveginn árið 1996 eftir stærsta hlaup aldarinnar í Skeiðará. Skeiðarárhlaupið olli miklu tjóni, bæði á brúm, vegum og raflínum og eins og í hlaupinu nú rofnaði hringvegurinn.

Þann fimmta nóvember árið 1996 varð mikið hlaup í Skeiðará, í kjölfar eldgoss í Grímsvötnum. Talið er að rennsli hlaupsins hafi náð allt að 50 þúsund rúmmetrum á sekúndu.

Mikið tjón varð á vegum og brúarmannvirkjum við Skeiðarársand í hlaupinu sem óx hraðar og var meira en menn höfðu áður þekkt. Það stóð í þrjá sólarhringa. Tæplega 400 metra brú yfir Gígjukvísl hvarf í vatnsflauminn sem braust fram úr Grímsvötnum og bar með sér sand, aur og stóra ísjaka. Brúin yfir Skeiðará eyðilagðist á 170 metra kafla og brúin yfir Sæluhúsakvísl stórskemmdist. Varnargarðar við fljótið skemmdust einnig og endurbyggja þurfti að minnsta kosti sjö kílómetrar af þjóðveginum yfir sandinn.

Daginn eftir að hlaupinu lauk hófst viðgerð á veginum yfir Skeiðarársand. Talið var að tvö ár tæki að byggja varanlegar brýr upp að nýju. Strax var ákveðið að koma á bráðabirgðavegasambandi til þess að tengja hringveginn.

Það tók 3 vikur og var gert í tvennu lagi. Annars vegar var byggð bráðabirgðabrú yfir Gígjukvísl og hinsvegar var lagður vegur upp að endanum sem eftir stóð af Skeiðarárbrúnni. Vegurinn var svo lagaður að öðru leyti þannig að hægt væri að aka hann.

Nú er mikill þrýstingur frá ferðaþjónustunni um að hraða framkvæmdum við Múlakvísl eins og hægt er. í nóvember árið 1996 var farið að snjóa norðan heiða og þeir sem voru í mestu vandræðnum þá voru flutningabílstjórar - og voru það helst þeir sem þrýstu á að hringvegurinn yrði tengdur sem fyrst.