Hringja í annan fjórðung eftir lækni

11.01.2017 - 17:48
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir  -  RÚV
Veikum manni, sem mætti á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða um helgina, var gert að hringja í Læknavaktina í Kópavogi til að fá aðstoð læknis þótt hann væri staddur á spítalanum á Ísafirði. Framkvæmdastjóri lækninga á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða segir að alvarlegu veiku fólki sé ekki vísað frá en hins vegar reiði viðbragðskerfi spítalans, utan afgreiðslutíma, sig á Neyðarlínuna og Læknavaktina. Engin móttaka er fyrir sjúklinga á kvöldin og um helgar.

Hallgrímur Kjartansson, framkvæmdastjóri lækninga, segir að farið hafi verið yfir boðleiðir innan spítalans í ljósi atviksins en að vakterindum utan hefðbundins afgreiðslutíma verði áfram sinnt með fyrri hætti í gegnum 1700 númer Læknavaktarinnar og síma Neyðarlínunnar 112.

Vegfarandi rakst á manninn meðvitundarlítinn

Fréttasíðan bb.is greindi frá tilfellinu sem varð um síðustu helgi þar sem vegfarandi kom að meðvitundarlausum manni á Hlíðarvegi, ekki langt frá sjúkrahúsinu. Bankað var uppá hjá nágrönnum, maðurinn kom til sjálfs síns og nágranni fylgdi manninum á sjúkrahúsið. Á sjúkrahúsinu fengu sá veiki og sá sem fylgdi honum þau skilaboð að þeir ættu að hringja á Læknavaktina til að fá aðstoð, símanúmerið 1700. Þar voru þeir númer þrjú í röðinni. Nágranninn sem varð eftir heima tók þá að sér að hringja í 112 þar sem var boðist til að kalla til sjúkrabíl þótt sá veiki væri kominn á sjúkrahúsið. Það fór svo að Neyðarlínan kallaði út vakthafandi lækni fyrir vestan sem kom eftir skamma stund.

Viðbragðskerfið utan veggja spítalans

Hallgrímur segir að komi til bráðatilvik utan afgreiðslutíma, og sjúklingur mætir á staðinn, þá sé hann tekinn inn og læknir kallaður til. Honum sé ekki vísað frá. Heilbrigðisstofnunin sé hins vegar ekki með móttöku sjúklinga utan dagvinnutíma og um helgar. Það hafi verið farið yfir boðleiðir innan spítalans til að koma í veg fyrir misskiling en hann áréttar að vakterindi eigi enn að fara í gegnum símanúmer læknavaktarinnar eða 112 utan afgreiðslutíma. Læknir á vakt sé ekki alltaf í húsi. Því skuli haft samband við síma Læknavaktarinnar eða 112 áður en farið er á spítalann. Hann segir mikilvægt að fólk hiki ekki við að hringja í 112 sé vafi á því hvort tilvik séu alvarleg eða ekki. Starfsfólk Neyðarlínunnar hafi tök á því að kalla út lækni, líkt og Læknavaktin, án tilkomu sjúkrabíls, sé þess þörf.

Breytt fyrirkomulag vaktsíma

Vaktsími Læknavaktarinnar er til þjónustu fyrir allt landið. Í símanúmerinu 1700 er hægt að tala við hjúkrunarfræðing sem aðstoðar fólk eða kallar út lækni. Hallgrímur segir þessa leið vera farna til að létta á álagi þess læknis sem er á vakt. Þar til síðasta vor hafi íbúar á Vestfjörðum getað hringt beint í vakthafandi lækni, eða á spítalann, en nú sé breytt kerfi. Ef til vill sé þörf á að kynna það betur. Sambærilegt kerfi sé hjá öllum heilbrigðisstofnunum landsins og var heilbrigðisstofnun Vestfjarða síðasta stofnunin til að taka það í gagnið.

Tilvikið um helgina er annað tilvikið sem bb.is greinir frá á stuttum tíma þar sem fólk mætir á spítalann og er gert að hringja til suður eftir aðstoð.

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV