Ekki var sótt um leyfi til að flytja héðan 250 hríðskotabyssur í gær með farþegaflugvél til Noregs. Samgöngustofa ætlar að óska eftir skýringum á því hvers vegna það var ekki gert.
Það er hugsanlegt að einhverjum farþegum hafi brugðið sem fóru með Icelandair árla morguns til Oslóar þegar þeir fréttu af því að um borð hefði líka verið 250 hríðskotabyssur af gerðinni MP5. Eftir að byssurnar höfðu legið í kössum í geymslu á Keflavíkurflugvelli í rúmt ár ákvað Landhelgisgæslan að senda þær aftur til Noregs og fyrir valinu var áætlunarflug Icelandair FI 316 sem lenti á Gardemoenflugvelli klukkan 7:20. Hins vegar hefur komið í ljós að ekki var sótt um leyfi fyrir þessum flutningum eins og lög og reglugerð gerir ráð fyrir. Í reglugerð um flutning hergagna með loftförum nr. 787 frá árinu 1998 kemur fram að flutningur hergagna með loftförum um íslenskt yfirráðasvæði, er óheimill nema með sérstöku leyfi Flugmálastjórnar Íslands sem heyrir nú undir Samgöngustofu. Þar á bæ hefur málið verið kannað og niðurstaðan er að ekki hafi verið sótt um leyfi eða óskað eftir heimild fyrir flutningunum. Samgöngustofa ætlar að óska eftir skýringum flugrekanda á því hvers vegna það var ekki gert.
Héldu að Gæslan hefði fengið leyfi
Reglugerðin gerir nefnileg ráð fyrir því að flugrekandinn, viðkomandi flugfélaga, í þessu tilfelli Icelandair, sæki um þetta leyfi. Icelandair hefur svarað fyrirspurn Spegilsins. Í því kemur fram að ekki hafi verið sótt um leyfi fyrir þessum flutningum. Væntanlega hafi starfsmenn gert ráð fyrir að slíkt leyfi væri staðar í ljósi þess fyrir hvern var flutt, það er að segja Landhelgisgæsluna.
Reglugerðin gerir ráð fyrir að beiðni um leyfi skuli berast 7 dögum áður en flug er fyrirhugað nema sérstakar aðstæður komi upp þar sem flutningur hergagna er nauðsynlegur með skömmum fyrirvara t.d. vegna hættu ástands eða átaka. Það á væntanlega ekki við um í þessu tilviki því Landhelgisgæslan hefur haft rúman tíma til að koma byssunum aftur til norska hersins.
Umsókninni um leyfi eiga að fylgja nákvæmar upplýsingar um m.a. um farminn, dagsetningar, markmið flugsins og leiðarlýsingu svo eitthvað sé nefnt. Upphaflega stóð til að flytja byssurnar 18. júní þannig að umsókn um leyfi hefði átt að berast Samgöngustofu viku fyrr eða 11. júní.
Sektir eða fangelsi
Hvernig tekið verður á málinu á eftir að koma í ljós. Í 5. grein reglugerðarinnar er kveðið á um viðurlög við brotum á 2. grein hennar um að ekki sé heimilt að flytja hér hergögn án leyfis. Reglugerðin er samin á grundvelli laga um loftferðir og í þeim kemur fram að brot gegn reglum geti varðað sektum eða fangelsi að fimm árum. Ef brotin eru talin alvarleg má svipta flugrekandann starfsleyfi en það á væntanlega ekki við í þessi tilfelli.