Í Twarz er dregin upp grátbroslega mynd af pólsku samfélagi í tilvistarkreppu með breiðri skírskotun til alþjóðasamfélagsins á tímum Brexit og Trumps.
Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:
Mug (Twarz) eða Fés er ný pólsk kvikmynd frá leikstjóranum Małgorzata Szumowska sem leikstýrir og skrifar handritið. Hún hefur áður gert kvikmyndirnar Elles með Juliette Binoche í aðalhlutverki og In the name of sem fjallar um ofríki kaþólsku kirkjunnar í Póllandi. Twarz, eða Fés, hlaut Silfurbjörninn á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín árið 2018 og er gagnrýni á hræsni kaþólsku kirkjunnar í Póllandi einnig í brennidepli í þessu frumlega gamandrama. Þetta er vinsælt yrkisefni pólskra kvikmynda sem gerast í samtímanum, er skemmst að minnast vinsælda kvikmyndarinnar Kler sem sló öll aðsóknarmet í heimalandinu á síðasta ári og fjallaði um þrjá synduga presta og glæpi kirkjunnar á tragikómískan hátt.
Fés gerist í dreifbýli í Póllandi samtímans og segir sögu verkamannsins Jaceks sem tekur þátt í að reisa stærstu Jesústyttu í heimi, sem var raunverulega reist árið 2010 í vesturhluta Póllands. Fés er þó skáldskapur og er staðsett í samtímanum, að minnsta kosti eftir Brexit, vegna þess að mágur Jaceks bendir honum á að erlendir innflytjendur séu ekki jafn velkomnir lengur Í London og áður þegar hann segist vilja flytja til þangað.
Jacek er hress náungi sem elskar metal tónlist, með sítt hár og klæðir sig að rokkara sið. Hann er lífsglaður náungi sem elskar að dansa með kærustunni sinni og er nokkuð á skjön við þröngsýnt samfélagið í sveitinni, þar sem kynþáttafordómar og guðsótti ríkir. Líf hans kúvendist hins vegar þegar hann tekur eitt ógæfuspor aftur fyrir sig á ótraustum vinnupallinum við Jesústyttuna og lendir í slysi sem verður til þess að andlit hans afskræmist. Hann fær fyrstu andlitsígræðsluna í Póllandi en það er allt annað en auðvelt fyrir Jacek að snúa aftur heim með nýtt andlit og engin lítur hann aftur sömu augum.
Fés er beitt ádeila á samtímann og kaþólsku kirkjuna eins og áður sagði, þar sem fórnarkostnaðurinn við byggingu styttunnar, andlit Jaceks, er smávægilegur í hinu stóra samhengi. Myndin tekur líka á samtímanum og er ádeila á neysluhyggju og það stóra hlutverk sem yfirborðsmennska, útlit, tæknin og snjallsímarnir eru að hafa á okkur. Myndin hefst á því að aðalsöguhetjan tekur þátt í einhvers konar nærfatahlaupi í verslun til þess að ná sé í flatskjá á spottprís en þessi sena er bæði bráðfyndin og óhugnanleg á sama tíma þar sem hálfnaktir skrokkar slást um flatskjái.
Kvikmyndin afhjúpar einnig skaðsemi hjátrúarinnar sem enn tórir, þó samhliða vísindum og tækniframförum sem gera læknunum kleift að græða nýtt andlit á Jacek sem og snjallsíminn sem aðstoðarmaður særingamannsins, sem er fengin til þess að úthýsa djöflinum úr Jacek, notar til þess að taka upp særingarathöfina. Sem er í senn hlálegt og írónískt. Pólskt samfélag, er eins og svo mörg önnur, fast í sérkennilegu limbói á milli fortíðar og framtíðar, framfara og fáfræði sem endurspeglast í fordómum og bábiljum. Jacek er á endanum ekkert nema andlitið að því er virðist, en hann er samt vitaskuld sami maðurinn þó svo að unnustan og fjölskyldan, að afa hans og systur undanskildum, séu ekki á sama máli.
Fés dregur upp margar eftirminnilegar myndir, sagan sjálf er nokkuð einföld, þetta er eins konar allegóría, Jacek sjálfur er nokkuð einfeldningslegur, hann er svo jákvæður og það er kaldhæðið að með nýja andlitið sitt lítur hann alltaf út fyrir að vera brosandi. Jesústyttan trónir svo yfir samfélaginu og kvikmyndinni og er tákn fyrir hjákátlegar tilraunir mannsins til þess að hlutgera guðina sem sprottið hafa upp úr ímyndunarfli okkar. Á endanum bregst ekki bara kirkjan, vinnuveitandi Jaceks, heldur líka samfélagið, en hann fær ekki örorkubætur og er dæmdur til þess að vera fullfær til vinnu því skaðinn var jú bara í andlitinu. Prestarnir velta því fyrir sér hvort þetta hafi nokkuð verið refsing fyrir að hafa ráðið erlenda verkamenn, sem eru meira að segja múhameðstrúar, til þess að reisa Jesústyttuna. Sem að sjálfsögðu rís, því á endanum eru það peningarnir sem trompa allt.
Myndtakan í Fés er nokkuð óvanaleg en hluti rammans er allan tíman úr fókus sem ljær myndinni draumkennt yfirbragð, eða leggur til að sjónarhorn okkar sé alltaf að hluta til bjagað. Leikstjóranum tekst að draga upp grátbroslega mynd af pólsku samfélagi í tilvistarkreppu með breiðri skírskotun til alþjóðasamfélagsins á tímum Brexit og Trumps.