Hraunið úr nýju eldstöðinni á Fimmvörðuhálsi rennur nú allt yfir í Hvannárgil þar sem myndast hefur nýr, um 100 metra hár hraunfoss. Hraun er hætt að renna í Hrunagil. Þessi breyting virðist hafa orðið á hraunrennslinu í morgun, en þá varð vart við gufubólstra í Hvannárbotnum. Og kippur kom í Hvanná um svipað leyti. Hvanná fellur í Þórsmörk skammt frá vegamótunum í Langadal, miklu utar en Hrunaá. Hvannárgilið er að sögn um fimm kílómetra langt, því mun það að óbreyttu taka hraunið langan tíma að mjakast niður í Mörkina.

Horfa á kvikmyndir frá Hvannárgili
myndir Vilhjálmur Þór Guðmundsson

Horfa á kvikmyndir frá Hrunagili
myndir Þór Ægisson

Skoða líkan Veðurstofunnar af mögulegu hraunflæði

Á annað hundrað manns hafa í dag verið við eldstöðvarnar. Litlu mátti muna í dag að hjálmlausir ferðamenn fengju á sig stórgrýti sem þeyttist upp úr Hvannárgili þegar hraunið fór að renna þar niður. Þórólfur Kristjánsson, í björgunarsveit Hafnarfjarðar, segir að miklar gufusprengingar verði þar sem hraunið rennur í Hvannárgil og leggst yfir snjó. Þá þeytist grjót upp úr gilinu.

Grjót hafi lent mjög nærri fólki og hafi björgunarsveitarmenn þurft að rýma svæðið á meðan. Fólk er varað við að vera þar sem hraunið rennur niður í gilið.

Fólk er beðið um að fara að öllu með gát og búa sig vel, veður getur breyst mjög snögglega á þessum slóðum. Björgunarsveitir verða á vakt á svæðinu alla helgina.

Ferðafélagið Útivist býður upp á leiðsögn að gosstöðvunum á morgun. Lagt verður af stað frá Skógum klukkan ellefu. Fimm leiðsögumenn fara með ferðamennina og hægt er að nálgast upplýsingar um hvaða búnað fólk þurfi að hafa á heimasíðu Útivistar.

Veðurspá fyrir Fimmvörðuháls

Laugardagur 27.03 og sunnudagur 28.03

Norðaustan og norðan 8-13 m/s og yfirleitt léttskýjað, en sums staðar snarpari vindhviður. (Allt að 18-20 m/s). Frost 6 til 10 stig.

Búast má við að hvessi seint á sunnudag, líklega þó ekki fyrr en um kvöldið.

Athugasemd. Þessi veðurspá gerir ráð fyrir veðrinu í u.þ.b. 800-1000 metra hæð yfir sjávarmáli.