Hrafnar hafa orpið víða í Reykjavíkurborg um árabil og er yfirleitt vel tekið en þó ber það við að hreiðrin eru eyðilögð eins og nýlega gerðist á húsi Háskólabíós. Austurbæjarskólinn, Kvennaskólinn og Hnitbjörg eru dæmi um staði sem hrafninn hefur valið sér á undanförnum árum.

Kristinn Haukur Skarphéðinsson dýravistfræðingur segir hrafninn einn fjögurra fuglategunda sem ekki eru friðaðar, og það sé nokkuð sérkennilegt í tilfelli hrafnsins og að sumu leyti tímaskekkja.

Hann ræddi líka um álftina sem samkvæmt fuglafriðunarlögum má ekki leyfa veiðar á nema í undantekningartilfellum. En samkvæmt frumvarpi sem lagt hefur verið fram þarf ekki nema pennastrik til að heimila veiðar á henni og er það vegna tjóns sem hún veldur m.a. á kornökrum.

Kristinn segir frumvarpið ekki þingtækt því  samkvæmt Bernarsáttmálanum sem Íslendingar eru aðilar að, má ekki veiða álftir nema í undantekningatilfellum.

Hann segir að út frá mati á heildartjóni vegna álfta megi reikna út að hver álft valdi  tjóni upp á 200 krónur.