Heldur óvenjulegur gestur gerði sig heimakominn á tölvuskjá í hljóðveri Rásar 2 í morgun þegar talandi hrafninn Krumma mætti í viðtal í Virkum morgnum ásamt töframönnunum Einari Mikael Sverrissyni og Eyrúnu Önnu Tryggvadóttur.

Krumma er heimalningur á bænum Vatnsholti í nágrenni Selfoss. Í sumar fór Einar Mikael að venja komur sínar á bæinn og varði sumarfríinu í að kenna henni töfrabrögð. Hann segir ótrúlegt hversu fljót hún hafi verið að læra.

Auk töfrabragðanna kann Krumma tvö orð, „Hæ!“ og „Heyrðu!“, að sögn Einars Mikaels. Krumma var þó ekki skrafhreifin í hljóðverinu, þótt útvarpsmaðurinn Andri Freyr Viðarsson hafi reynt að tala hana til. Krumma gaf reyndar ekki mikið fyrir þetta allt saman og skeit á gólfið í hljóðverinu.

Krumma gegnir fleiri skyldum en flestir hrafnar en lifir samt frjáls á Vatnsholti og kemur og fer þegar hún vill, að sögn Einars Mikaels. En er hann ekkert smeykur um að hún ákveði einn daginn að fljúga á hrafnaþing og komi ekki aftur? „Hún verður bara að fá að gera það sem hún vill,“ segir Einar Mikael.