Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir óvenjulegt og óskynsamlegt af Bandaríkjaforseta að hóta því að skera á fjárstuðning við ríki sem ályktuðu gegn þeim á fundi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í dag. 128 þjóðir samþykktu ályktunina, þar sem hafnað var þeirri ákvörðun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels. Níu þjóðir greiddu atkvæði gegn henni, að Bandaríkjamönnum og Ísraelsmönnum meðtöldum, og 35 þjóðir kusu að sitja hjá.
Ísland var á meðal þeirra ríkja sem greiddi atkvæði með ályktuninni. „Það átti ekki að koma neinum á óvart,“ segir Guðlaugur. „Það er í samræmi við þá stefnu sem við höfum – við styðjum tveggja ríkja lausn og að málefnum Jerúsalem verði fundinn farvegur með sameiginlegri ákvörðun Ísraels og Palestínumanna.“
Haft hafi verið samráð við aðrar þjóðir um ákvörðunina. „Það er ekkert leyndarmál að við áttum samtal og samræður við okkar nágrannaríki, og þá sérstaklega Norðurlöndin,“ segir utanríkisráðherra.
Hafði engin áhrif á afstöðu Íslands
Fram hefur komið að Donald Trump hótaði þeim þjóðum sem mundu styðja ályktunina því að skorið yrði á fjárstuðning til þeirra. „Þetta er óvenjulegt og ég mundi telja að þetta væri óskynsamlegt. Við fengum sömuleiðis bréf frá fastafulltrúa Sameinuðu þjóðanna og ég sagði það strax og það liggur alveg fyrir að það bréf hafði engin áhrif á afstöðu okkar til þessarar atkvæðagreiðslu,“ segir Guðlaugur.
Finnst þér þessi afstaða og þessar yfirlýsingar Bandaríkjaforseta vera óviðeigandi?
„Ég veit ekki hvaða orð á að hafa um það. Þetta er nokkuð sem við höfum kannski ekki séð oft áður en aðalatriðið er að það er komin niðurstaða í þessa atkvæðagreiðslu og hún er afgerandi.“
Hann segist vona að þessi umræða og atkvæðagreiðsla verði til þess að málefni Ísraels og Palestínu verði færð skör ofar í alþjóðasamfélaginu – deilan hafi varað allt of lengi.