Hótaði að stúta barnsmóður sinni

14.09.2017 - 14:54
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv  -  rúv
Hæstiréttur staðfesti í gær nálgunarbann manns gagnvart barnsmóður sinni þar til í byrjun næsta árs. Maðurinn hefur áður verið settur í nálgunarbann vegna líkamsárásar á konuna. Þá braut hann sex sinnum gegn ákvæðum nálgunarbannsins og hlaut átján mánaða fangelsisdóm, að mestu skilorðsbundinn fyrir líkamsárásina og brotin gegn nálgunarbanninu.

Að því er fram kemur í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, sem birtist með dómi Hæstaréttar, hefur lögregla reglulega haft afskipti af manninum og konunni. Þar segir að hann hafi gert húsbrot á heimili konunnar og unnið þar eignaspjöll. 

Fram kemur í úrskurðinum að konan hafi reynt að sættast við manninn eftir síðasta nálgunarbann, þegar hann fór í meðferð. Það hafi gengið vel í fyrstu en versnað eftir tvo mánuði, þegar svo virtist að maðurinn væri á ný byrjaður í neyslu. Hún hafi þá sagt manninum að hann fengi ekki að hitta börn þeirra í þessu ástandi og hætt samskiptum við hann. Síðar hafi hún rætt við aðra barnsmóður mannsins og þær ætlað að leyfa honum að hitta öll börnin í einu, í viðurvist beggja. Því hafi maðurinn hafnað og haft í hótunum við barnsmóður sína í smáskilaboðum og símtölum. Til er upptaka þar sem hann segist ætla að stúta henni komi hún ekki með börnin, að hann langi til að berja hana og drepa. Maðurinn neitaði því í yfirheyrslu hjá lögreglu að hafa hótað konunni. Þegar lesið var upp fyrir manninn það sem hann hafði sagt í upptökunni sagðist hann ekki hafa meint það, aðeins verið reiður. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV