Umhverfisstofnun ætlar að stöðva rekstur United Silicon, verði ekki ráðist í tafarlausar úrbætur í mengunarmálum. Íbúar á Suðurnesjum hafa kvartað undan líkamlegum einkennum vegna mengunar frá verksmiðjunni. Umhverfisstofnun hefur aldrei áður ráðist í eins umfangsmikið eftirlit og í tilfelli verksmiðjunnar.

Ábendingum hefur rignt yfir Umhverfisstofnun frá íbúum á Suðurnesjum þar sem kvartað er undan lyktar- og reykmengun frá kísilveri United Silicon í Helguvík. Verksmiðjan var gangsett í nóvember og hefur Umhverfisstofnun fylgst grannt með starfsemi hennar síðan þá. Í gær sendi stofnunin fyrirtækinu svo harðort bréf.

„Það er vegna þess að vandamál varðandi lykt og sýnilegan reyk frá verksmiðjunni eru orðin viðvarandi að okkar mati,“ segir Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun. „Við höfum ekki séð að það hafi verið gerðar umtalsverðar umbætur. Við höfum á undanförnum dögum verið að fá til okkar á sjötta tug kvartana frá íbúum í Reykjanesbæ sem sumir hverjir kvarta yfir líkamlegum einkennum, sviða í hálsi og öðru slíku. Og við teljum bara tímabært að það verði gerðar þarna úrbætur sem um munar.“

Engin fordæmi

Í bréfinu segir að Umhverfisstofnun hafi ákveðið að ráðast í verkfræðilega úttekt á mengunarmálum United Silicon. Þangað til hún hafi farið fram, verði fyrirtækið að takmarka framleiðslu sína við einn ofn. Þá segir í bréfinu:

Hugsanlegt er að stöðva þurfi reksturinn tímabundið til að framkvæma nauðsynlegar úrbætur.

„Ef ekkert breytist getur þurft að skoða það,“ segir Sigrún.

Þið segið í bréfinu að það séu sterkar vísbendingar uppi um að íbúar megi upplifa lífsgæðaskerðingu vegna loftmengunar  eruð þið þá að vísa til þessara ábendinga sem þið hafið fengið?

„Já. Það er bara það sem íbúarnir hafa verið að lýsa við okkur í samtölum og tölvupóstum, hvernig þeim líður. Og þetta er ekki nógu gott.“

Það eftirlit sem þið hafið með þessu fyrirtæki, er það meira en þið hafið haft með öðrum fyrirtækjum?

„Já það er mun meira. Og ekki fordæmi um annað eins.“

Kristleifur Andrésson, stjórnandi öryggis- og umhverfismála hjá United Silicon, segir að fyrirtækið muni nýta 14 daga viðbragðsfrest sinn við bréfi Umhverfisstofnunar. Ekki sé ljóst hvaða áhrif úttekt stofnunarinnar muni hafa á rekstur fyrirtækisins. Nánar verður rætt við Kristleif í fréttum klukkan tíu í kvöld.