Ekki er ofmælt að Viktor Arnar Ingólfsson sé hógvær maður. Miðað við hversu margir hafa lesið bækur hans þekkja fáir hann í sjón. Nú er RÚV að hefja sýningar á sjónvarpsmynd í fjórum hluta sem byggð er á bók Viktors Arnars, Flateyjargátu. Hún kom út 2002 og var fjórða bók höfundar.
Viktor Arnar vill lítið tala um fyrstu tvær bækurnar sem hann gaf út, Dauðasök, 1978 og Heitan snjó, 1982. Hann lýsir þeim nánast sem bernskubrekum eða ritæfingum en með sögunni Engin spor, 1998, varð breyting.
Raunar varð breytingin hæg. Enginn hafði í fyrstu áhuga á handritinu að bókinni og Viktor Arnar gaf hana fyrst út sjálfur. Hún spurðist vel út og Mál og menning gaf hana út í kilju og hún hefur síðan farið víða. Svo kom Flateyjargáta og á eftir henni tvær bækur, Afturelding, 2005 og Sólstjakar, 2009. Sjónvarpsmyndaflokkurinn Mannaveiðar var byggður á fyrri bókinni. Nú er Viktor Arnar að skrifa þriðju bókina í þessum flokki. Að henni lokinni langar hann að ráðast í gerð nýrrar glæpasögu sem byggð verður á sögulegum grunni. Baksviðið verður gamla Fnjóskárbrúin, þessi fallega bogabrú sem átak var að reisa árið 1908.
Viktor Arnar Ingólfsson sagðist á Morgunvaktinni vera ánægður með fyrsta þátt Flateyjargátunnar. „Ég var mjög ánægður. Þetta er ekki mín saga lengur en þeim mun meira spennandi fyrir mig.“ Hann segir að bókinni sé ekki fylgt alveg en þannig sé þetta. „Svo geri ég bara það sem ég er bestur í, og það er að vera ekki fyrir."
Viktor Arnar þekkir sögusviðið í Flatey vel því að þar liggja rætur fjölskyldu hans. „Í minni bók verður til gáta sem er efnislega úr Flateyjarbók. Ég þrautlas hana og reyndi að finna atriði sem væru skemmtileg. Flateyjarbók er eiginlega ótrúlega skemmtileg lesning og það eru alltof fáir sem hafa lesið hana."