„Ég held að þetta sé mikil skyssa fyrir okkar samfélag,“ segir tónlistarmaðurinn Högni Egilsson um ákvörðun stjórnvalda að leyfa áframhaldandi hvalveiðar við landið.
Högni sat á bekk á Eyjaslóð úti á Granda og horfði til hafs þegar Síðdegisútvarpið bar að garði, fyrir utan hljóðver sitt og hljómsveitarinnar Hjaltalín sem nú er við upptökur á sinni fjórðu plötu. „Við erum búin að vera í stúdíóinu í allan morgun. Það er gott að finna sjávarandvarann í loftinu,“ segir Högni. „Við erum komin talsvert á leið, núna erum við að taka upp alls konar hljóðfæri og overdubs, síðan förum við til Ungverjalands í apríl og tökum upp strengi og flautur og svona.“ Hann segir mikla vinnu hafa farið í plötuna. „Við höfum verið að sinna henni í einhver ár. Klárum hana 1. maí.“
Í gær steig Högni inn á pólitískan vettvang þegar hann skrifaði grein í Fréttablaðið þar sem hann mótmælti hvalveiðum Íslendinga. „Mér var ansi heitt í hamsi. Ég horfi bæði á þetta út frá forsendum náttúrutrúar, heildrænni hugsun um jörðina, en líka einfaldlega veraldlegum sjónarmiðum, við erum að skaða ímynd okkar illa á erlendri grundu,“ segir Högni sem hefur flutt tónlist sína víða um heim undanfarin ár. „Það hefur alltaf verið jákvæð ímynd af Íslandi, gott fólk með mikla sköpunargáfu. En núna eru allar fréttir um hversu miklir villimenn við erum, slátrum dýrum sem er búið að leggja alþjóðlegt bann við að drepa.“
„Ég er bara einn maður“
Högni segir að teikn séu á lofti um að hvalveiðarnar muni hafa mikil áhrif til hins verra á efnahaginn. „Okkar helsti iðnaður, ferðamannaiðnaðurinn bíður mikla hnekki. Sömuleiðis ef við ætlum að auka útflutning á fiski, þá er okkur alltaf mætt með andstöðu út af hvalveiðunum,“ segir Högni sem telur brýnt afturkalla lögin sem heimili hvalveiðar og um leið senda hávær skilaboð til umheimsins.
„Ég held við séum að sigla inn í mikilvæga öld fyrir okkar mannskeið. Það er komið sumar í London, við eigum allt eins von á því að það verði eitt heitasta sumar í sögu jarðar,“ sem Högni telur til marks um ójafnvægi í loftslaginu. „Ég er bara einn maður og reyni að gera eitthvað, en saman sem fólk getum við flutt fjöll. Ég hef einlæga trú á að þessi þróun sé farin af stað, og að þessi lög verði afturkölluð innan nokkurra mánuða og við getum þá snúið okkur að næsta máli,“ segir Högni áður en hann stendur upp af bekknum og snýr aftur í hljóðverið.
Guðmundur Pálsson ræddi við Högna Egilsson í Síðdegisútvarpinu.