„Þetta er með ólíkindum, þetta er svo óréttlátt og ósanngjarnt að maður með þennan bakgrunn og svívirðilegu og ógeðslegu sögu fái að sinna þessum störfum,“ segir Bergur Þór Ingólfsson, faðir eins fórnarlamba Roberts Downey. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í gær að veita skyldi Roberti lögmannsréttindi á ný en þau missti hann eftir dóm fyrir kynferðisofbeldi gegn fjórum stúlkum. Rætt var við Berg í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
Fréttir gærdagsins mikið áfall
Bergur og fjölskylda hans heyrðu af því í fjölmiðlum í gær að Robert hafi fengið uppreist æru í september í fyrra og að honum hafi verið veitt málflutningsleyfi á ný. Tólf ár eru síðan dómurinn yfir Robert féll. Bergir segir þau hafa reynt að græða sárin á þeim tólf árum sem liðin eru síðan dómurinn féll. „Við höfum reynt að græða sárin sem gróa aldrei. Fréttirnar í gær sprengdu allt upp.“ Hann segir þau öll hafa brostið í grát við fréttirnar. „Það er algjörlega út í hött að æran skuli rétt við í einhverju undarlegu ferli, það er eitthvað sem mig langar að sjá, það hvað gerðist inni í dómsmálaráðuneyti“ segir hann.
Segir Robert hafa verið með flokkunarkerfi yfir stúlkur
Bergur bendir á að til að dæmt fólk geti fengið uppreist æru þurfi það vottorð frá tveimur valinkunnum einstaklingum. Málið fari síðan til dómsmálaráðuneytis og forseti Íslands skrifi undir. Hann segir greinilegt að saksóknari hafi varist því vel að Robert fengi lögmannsréttindi á ný því að málið hafi verið tekið fyrir bæði hjá héraðsdómi og Hæstarétti. „Á sínum tíma var hann með hundruð nafna stúlkna í tveimur símum á fjórum símkortum og aldur þeirra með eins og hann væri með flokkunarkerfi yfir það hver séu auðveldustu fórnarlömbin.“ Bergur segir Robert hafa leitað að fórnarlömbum sem voru veik fyrir. „Dóttir mín hafði lent í einelti og var veik fyrir. Einhvern veginn fann hann hana og lokkaði hana til sín. Hann notaði þrjú mismunandi nöfn, þrjú mismunandi netföng og notendanöfnum á msn, meðal annars nafn sonar síns, svo svívirðilegur var hann.“
Í dómi Hæstaréttar síðan í gær segir að Robert vilji skilja við þann kafla í lífi sínu sem leiddi til dómsins. Liður í því sé að endurheimta málflutningsleyfið. Bergur segir þetta sterkasta táknið um iðrun sem hafi komið frá Robert. „Það er eins hann sé fórnarlamb okkar og dætra okkar. Ég skil ekki að allar þessar girðingar, dómsmálaráðuneyti, forseti og Hæstiréttur, að þær skuli ekki duga til að vernda börnin okkar.“