„Það hefur oft verið ánægjulegra að vera Íslendingur í útlöndum“, sagði Arthúr Björgvin Bollason á Morgunvaktinni á Rás 1. Hann kynnti völdum hópi í Bæjaralandi á dögunum óútkomna bók sína um Ísland. Eftir upplesturinn dundu á honum spurningar: „Hvernig það mætti vera í þessu örlitla samfélagi, á þessari stórbrotnu eyju, væru ráðamenn svo illa haldnir af græðgi að þeir skeyttu hvorki um skömm né heiður þegar peningar væru annars vegar.“
Tilefni þessa spjalls á Morgunvaktinni var forsíðufrétt í vefútgáfu Süddeutsche Zeitung í gær, þar sem vísað er til ítrekaðrar afneitunar forseta Íslands á hugsanlegri tengingu eiginkonu hans við aflandsfélög. Süddeutsche Zeitung er virtasta og útbreiddasta dagblað Þýskalands og umfjöllun blaðsins um Panama-skjölin og aflandsfélög í skattaskjólum hefur vakið gríðarlega athygli.
„Maður hittir ekki mann úti núna sem ekki hefur fylgst með þessum málum. Það veit öll þýska þjóðin að forsætisráðherra Íslands þurfti að segja af sér út af þessum aflandsmálum og þessi grein á forsíðu netútgáfu blaðsins er punkturinn yfir i-ið. Menn héldu að þessu væri að ljúka. Það sem Íslendingar ættu að fara hugsa um er að þessir atburðir síðustu missera, og núna með forsetann á forsíðu stórblaðs, hafa skapað mynd af þjóðinni sem er farið að minna á einhvern frumstæðan þjóðflokk. Við erum að verða einhver undarlega kjánalegur söfnuður á hjara veraldar sem komst óvænt í feitmeti og getur ekki hætt að troða út á sér belginn. Það er mikill misskilningur þegar fólk heldur því fram að þetta hafi ekki áhrif á ímynd Íslendinga í útlöndum. Við erum búin að verða okkur til háborinnar skammar um víða veröld og ekki síst í okkar nágrannalöndum, eins og Þýskalandi,“ sagði Arthur Björgvin á Morgunvaktinni, og bætti við: „Að sjálfur þjóðhöfðinginn komist í svona feitletraðar fyrirsagnir á síðum blaða, eins og Süddeutsche Zeitung í gær, er náttúrulega miklu meira mál en fólk heldur. Þetta er stærsta dagblað Þýskalands.“