Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að loftárásir Bandaríkjamanna, Breta og Frakka á Sýrland í nótt hafi verið viðbúnar eftir að ekki náðist samstaða í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um viðbrögð við efnavopnanotkun þar í landi, sem hafi verið mikil vonbrigði.
Spurð hvort íslensk stjórnvöld styðji árásirnar segir Katrín: „Okkar utanríkisráðherra hefur sagt – og þar er ríkisstjórnin sammála – að við leggjum áherslu á að það náist samstaða innan öryggisráðsins um þær aðgerðir sem eigi að grípa til. En eins og ég segi þá voru þessar árásir viðbúnar eftir að hún náðist ekki í vikunni.“
En styður þú, sem formaður Vinstri grænna, þessar árásir?
„Við höfum alltaf talað fyrir friðsamlegum lausnum og gerum það enn þá. Það er bara í takti við stefnu íslenskra stjórnvalda um þessi mál.“
Þegar Katrín er enn spurð hvort hún styðji árásirnar, svarar hún: „Við höfum ekki lýst sérstökum stuðningi við þessar aðgerðir, ríkisstjórnin, en við höfum sagt að þær hafi verið viðbúnar.“
Ætlið þið að lýsa yfir stuðningi við þær?
„Það sem gerist næst í þessum málum er að ég vænti þess að það verði fundað í NATO í dag en afstaða íslenskra stjórnvalda liggur algjörlega fyrir í þessum málum,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.