HM í frjálsum - Samantekt frá sjöunda degi

10.08.2017 - 22:23
Sjöunda keppnisdegi heimsmeistaramótsins í frjálsum íþróttum er nú lokið í London. Þrír heimsmeistarar voru krýndir í dag í þremur ólíkum greinum, auk þess sem Aníta Hinriksdóttir keppti í undanrásum 800 m hlaups kvenna í kvöld.

Í spilaranum hér fyrir ofan má sjá samantekt frá keppni dagsins.

Aníta komst ekki í undanúrslitin

Aníta Hinriksdóttir er úr leik á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum í London. Aníta rétt missti af sæti í undanúrslitum HM í 800 m hlaupi í kvöld. Aníta kom fjórða í mark í sínum riðli á 2:03,45 mín. Þrír fyrstu í hverjum riðli komust í undanúrslit, en svo sex hröðustu hlaupararnir þar fyrir utan. Tími Anítu dugði henni ekki til þess að komast áfram.

Aníta hljóp þó nokkuð vel í kvöld, en lokaðist inni í þvögunni á seinni hringnum. Hún náði ekki að losa sig út úr hópnum og endaði á því að koma fjórða í mark og er úr leik á HM.

„Ég bara klúðraði þessu alveg taktístk. Mér leið vel allt hlaupið, en svo hægðist svolítið mikið á því og ég var lokuð inni. Svo sá ég bara að þrjár fyrstu voru farnar. Ég veit ekki hvað gerðist. Ég er ekki þreytt, það er kannski adrenalínið. En þetta var alveg fáranlega lagt upp,“ sagði Aníta Hinriksdóttir eftir að hún varð af sæti í undanúrslitum 800 m hlaups kvenna á HM í frjálsum íþróttum í London í kvöld.

„Hlaupið var lagt þannig upp að ég myndi vera í broddinum allan tímann og reyna svo að taka góðan endasprett og vera meðal þriggja efstu. En þetta var bara fáranlega lagt upp og ég veit eiginlega ekki nákvæmlega bara hvað gerðist,“ sagði Aníta eftir hlaupið.

Taylor varði titilinn í þrístökkinu

Í þrístökki karla var heimsmeistari krýndur í kvöld, en fyrirfram var búist við harðri baráttu milli Bandaríkjamannanna Christians Taylors og Will Claye. Taylor tók forystuna strax í fyrsta stökki en Will Claye átti langt þriðja stökk sem mældist 17,63 metrar. Þar með var Claye kominn í forystuna og sentimetrastríðið hélt áfram milli Claye og Taylors.

Taylor sem er tvöfaldur Ólympíumeistari og ríkjandi heimsmeistari var því undir pressu og nýtti þessa pressu vel í sínu þriðja stökki, því það var vel útfært hjá honum. Stökkið mældist 17,68 metrar og Taylor var þar með kominn fimm sentimetrum fram úr Claye.

epa06136448 Christian Taylor of the USA celebrates winning the men's Triple Jump final at the London 2017 IAAF World Championships in London, Britain, 10 August 2017.  EPA/DIEGO AZUBEL
 Mynd: EPA
Christian Taylor varði heimsmeistaratitilinn í þrístökki.

Hvorugur náði að stökkva lengra og Christian Taylor varði því heimsmeistaratitil sinn í þrístökki, en þetta voru hans þriðju gullverðlaun í þrístökki á HM.

Carter óvæntur sigurvegari í 400 m grindahlaupinu

Kori Carter varð heimsmeistari í 400 m grindahlaupi kvenna. Fyrirfram var samlanda hennar frá Bandaríkjunum, Dalilah Muhammad talin sigurstranglegri. Carter kom hins vegar fyrst í mark á tímanum 53,07 sek.

epa06136491 Winner Kori Carter (L) of the USA celebrates with second placed Dalilah Muhammad (R) of the USA after the women's 400m Hurdles final at the London 2017 IAAF World Championships in London, Britain, 10 August 2017.  EPA/FRANCK ROBICHON
 Mynd: EPA
Kori Carter vann gullið í 400 m grindahlaupi.

Þetta voru fyrstu verðlaunin sem Kori Carter vinnur á stórmóti í frjálsum íþróttum. Muhammad vann silfrið, en tími hennar var 53,50 sek. og Ristananna Tracey frá Jamaíku fékk brons á persónulegu meti, 53,74 sek.

Tyrkinn Guliyev vann 200 m hlaupið

Ljóst var að nýr heimsmeistari yrði krýndur í 200 m hlaupi karla í kvöld, þar sem fjórfaldur heimsmeistari, Usain Bolt keppti ekki í greininni í ár. Búist var við hörkukeppni í úrslitunum í kvöld og beindust sjónir manna að Wayde van Niekerk, heims- og Ólympíumeistara og heimsmethafa í 400 m hlaupi, Isaac Makwala frá Botswana og Jereem Richards frá Trinidad og Tóbagó.

Tyrkinn Ramil Guliyev var líka líklegur í verðlaunabaráttu, en hann gerði gott betur en það og tryggði sér heimsmeistaratitilinn. Sigurtími Guliyev var 20,09 sek.

epa06136466 Turkey's Ramil Guliyev (4-R) is on his way to win the men's 200m final at the London 2017 IAAF World Championships in London, Britain, 10 August 2017.  EPA/SEAN DEMPSEY
 Mynd: EPA
Úrslitin í 200 m hlaupi karla voru spennandi.

Þetta voru fyrstu gullverðlaun Guliyev á stórmóti, en hann vann til silfurverðlauna í 200 m hlaupi á EM í Amsterdam í fyrra. Wayde van Niekerk vann silfurverðlaunin í kvöld á 20,11 sek. Hann var einum þúsundustu hluta á undan Jereem Richards frá Trinidad og Tóbagó sem varð þriðji og vann bronsið.

Isaac Makwala endaði í 6. sæti, en hans vonbrigði voru fyrst og fremst að hafa ekki fengið að hlaupa í úrslitum 400 m hlaupsins í fyrrakvöld. Það er hans sterkasta grein. Honum var hins vegar meinuð þátttaka í úrslitum 400 m hlaupsins, þar sem hann var með nóróveirusýkingu og var hafður í sóttkví í tvo daga.

Mynd með færslu
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson
íþróttafréttamaður