Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri uppsjávarlífríkis Hafrannsóknastofnunar, telur að hlýnun eigi sinn þátt í loðnubrestinum sem sjávarútvegsfyrirtæki hafa miklar áhyggjur af. Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, segir að það yrði mikið högg og tekjusamdráttur hjá fyrirtækinu upp á 30% ef engin loðna veiðist. „En þetta er það sem við búum við í sjávarútvegi. Það eru sveiflur í fiskistofnum og við mætum því í okkar rekstri."
Rætt var við Gunnþór og Þorstein á Morgunvakt Rásar 1.
Þar benti Gunnþór meðal annars á að loðnan sé neðarlega í fæðukeðjunni og því mikilvæg fyrir lífríkið í sjónum. „Staðan nú er grafalvarleg," sagði Gunnþór. Það þurfi meira fjármagn til að fylgjast betur með þessum stofni en við höfum verið að gera. Þorsteinn tók undir það. Vöktunin sé of lítil til að gefa raunsanna mynd af ástandinu.
„Það er áhugi hjá útgerðum og Hafrannsóknarstofnun að fara út einu sinni enn og reyna að átta okkur á því hvort staðan sé raunverulega svona slæm með loðnustofninn eða hvort hún sé að koma seinna. Það eru vísbendingar um það.
Þorsteinn sagði að loðnustofninn hafi átt undir högg að sækja á síðustu árum. „Við fórum að sjá ákveðin merki um hnignun í stofninum eftir að það fór að hlýna." Þá hafi loðnan flutt sig um set og fari norðar en áður, auk þess sem það virðist meiri óregla í því hvenær hún kemur.
Hann segir að nú sé búið að fara ansi vel yfir Íslandsmið og inn á Grænlandsmið. Nú verði reynt að vakta annars vegar Suðurströndina og hins vegar út af Vestfjörðum og vestanverðu Norðurlandi.