Á laugardag 2. mars, voru nákvæmlega 60 ár liðin síðan upptökur hófust á hljómplötunni Kind of Blue með bandaríska trompetleikaranum Miles Davis. Platan er stundum sögð vera einhver albesta jazzplata allra tíma, hún er jafnframt sú söluhæsta, hefur haft áhrif á tónlistarfólk úr öllum greinum tónlistar, og jafnvel talað um að hún hafi breytt tónlistarsögunni.
Stundvíslega klukkan 14:30, mánudaginn 2. mars árið 1959, röltu nokkrir hljóðfæraleikarar inn í hljóðver Columbia-útgáfufyrirtækisins við 30. stræti í New York. Þeir John Coltrane, Julian "Cannonball" Adderley, Bill Evans, Wynton Kelly, Paul Chambers og Jimmy Cobb, vissu ekki hvað var í vændum og þeir vissu auðvitað heldur ekki að þeir voru í þann veginn að breyta tónlistarsögunni. Þá er ónefndur einn maður, hann var 169 sentimetrar á hæð, nýbúinn að sigrast á heróínfíkn, lék á trompet, og hét Miles Davis, kannski vissi hann meira en þeir hinir, þó er það ekki alveg víst. Við vitum hins vegar að hljómplatan Kind of Blue var hljóðrituð á tveimur dögum á fyrri hluta árs 1959, seinni upptökudagurinn var 22. apríl, en platan kom síðan út þann 17. ágúst þetta sama ár, og fékk frábærar viðtökur. Bandaríska jazz-tímaritið Downbeat gaf plötunni fimm stjörnur, fullt hús, og allar götur síðan hafa tónlistaráhugamenn keppst við að róma Kind of Blue. „Þarna var talað um ákveðin vatnaskil,“ segir Jakob Frímann Magnússon tónlistarmaður í viðtali við Lestina. „Boppið var farið að fjarlægjast alþýðuskap dálítið og ýmsir jazzmenn farnir að huga að nýjum lendum, kannski ívið mýkri lendum.“
Hljóðheimurinn var nýr, og hann var svalur, skrifað hefur verið að þarna hafi orðið til nýtt tungumál í tónum. „Ég held ég hafi aldrei haldið matarboð öðruvísi en að bregða þessari plötu á,“ segir Jakob, „hún stimúlerar mann hvort sem maður er að hlusta á hana eingöngu eða hvort sem maður er að borða og tala við annað fólk.“ Sjálfur sagði Miles Davis að uppruna Kind of Blue mætti rekja allt aftur í bernsku, þegar hann, sex ára gamall, var að ganga heim eftir dimmum vegi, nýkominn úr kirkju, með höfuðið fullt af gospel-tónlist. Með Kind of Blue urðu ákveðin vatnaskil í sögu jazz-tónlistar, eins og Jakob nefnir, og platan hefur iðulega verið valin ein af bestu plötum jazz-tónlistarsögunnar, og víst er að á plötunni fór Miles nýjar leiðir. ,,Miles Davis var marketing-minded maður,“ segir Jakob, „hann vildi hafa ökónómíuna á hreinu, og þetta var örugglega að einhverjum hluta þannig pæling, en líka var hann orðinn leiður á hinu, hann vildi fara inn í eitthvað sem var öðruvísi og ný nálgun á þeim tíma.“
Galdur einfaldleikans
Ferill Miles Davis var með ólíkindum, spannaði hálfa öld, og óhætt að telja hann með fremstu og áhrifamestu jazz-tónlistarmönnum 20. aldar. „Miles Davis var aldrei be-boppari,“ segir Vernharður Linnet, „honum leið aldrei vel að þræða hljómaganginn á hundrað og bæta inn ýmsu nýju. Þegar hann var með Charlie Parker þá var hann auðvitað andstæðan við Parker, hann er „cool“ á meðan Parker er auðvitað heitur og expressjónískur.“
Þegar Miles Davis hljóðritaði Kind of Blue var hann þrjátíu og tveggja ára gamall, og hafði verið starfandi jazz-tónlistarmaður frá unglingsaldri, fæddur í Illinois þann 26. maí árið 1926, og það má eiginlega segja að hann hafi umbylt jazz-tónlistinni oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á sínum langa og glæsilega ferli. „Hann er eins og Picasso,“ segir Vernharður, „alltaf ný tímabil,“ og hann er ekki í vafa um að þáttur bandaríska píanóleikarans Bills Evans sé einkar mikilvægur á hljómplötunni Kind of Blue. „Þarna er galdurinn Bill Evans, galdurinn er í píanistanum,“ segir Vernharður. Galdur plötunnar felist þó einnig í einfaldleikanum. „Melódían er ekki sterk á Kind of Blue, þetta eru sketsar, enda hafa líklega bara þrjú af fimm lögunum verið spiluð að ráði.“
Út í óvissuna
Kind of Blue kom út hjá Columbia-útgáfunni og það skiptir máli því forráðamenn fyrirtækisins gerðu Miles Davis kleyft að verja lengri tíma í hljóðveri en hann hafði vanist, áður hafði hann tekið upp heilu plöturnar á þremur klukkutímum. Og eins og áður segir vissu hljóðfæraleikararnir sem gengu inn í Columbia-hljóðverið við 30. stræti í New York, mánudaginn 2. mars árið 1959, ekkert hvað var í vændum, þeir vissu einfaldlega ekki hvað þeir voru að fara að spila. „Í því felst dálítill galdur líka, að hafa menn á tánum,“ segir Jakob. Miles Davis var ævinlega óhræddur við að feta nýjar slóðir, mílusteinarnir á ferli hans eru fjölmargir, og oftar en ekki fór hann í óvæntar áttir. „Svo má ekki gleyma því að ellefu árum síðar stendur Miles Davis fyrir annarri byltingu með Bitches Brew,“ segir Jakob, „sem var talin marka upphaf hins illræmda raf-jazz.“
Kind of Blue hefur selst í fimm milljónum eintaka og er líklega einhver mest selda jazz-plata tónlistarsögunnar. Hún hefur haft áhrif á tónlistarmenn í öllum greinum tónlistar, bandaríski upptökustjórinn Quincy Jones kallaði plötuna listaverk sem útskýrir fyrir fólki hvað jazz-tónlist er, og landi hans, píanóleikarinn Chick Corea sagði að með plötunni hefði orðið til nýtt tungumál. Talað er um að platan hafi haft áhrif á tónlistarmenn og hljómsveitir á borð við Steve Reich, John Cale, Terry Riley, Brian Eno, Velvet Underground og Pink Floyd, og þannig mætti raunar áfram telja. ,,Þetta er fjölnota plata, hún nær bæði jazz-geggjurum og fólki sem er ekkert endilega hrifið af jazz en kann vel við þennan hljóðheim og þennan módal-isma allan," segir Jakob Frímann. „Hún höfðar til svo margra,“ segir Vernharður, sem hlustar á Kind of Blue við og við. „Þótt George Lewis hafi verið búinn að gera frábærar módal-plötur þá er Kind of Blue sú fyrsta sem hefur áhrif yfir allan jazz-heiminn.“
„Ég hlusta ekki bara á hana í matarboðum,“ bætir Jakob við að lokum, „mér finnst hún vera „for all seasons“ og hún markaði þáttaskil, það er ástæðan fyrir því að við sitjum hérna, sextíu ár síðan þessi merka plata var hljóðrituð, og hún breytti miklu.“
Rætt var við Jakob Frímann Magnússon og Vernharð Linnet í Lestinni.