Mjög aukin rafleiðni er nú í Jökulsá á fjöllum. Jarðfræðingur segir hugsanlegt að hlaup sé að hefjast í ánni. Engin merki séu um gosóróa en þó sé ekki hægt að útiloka neitt í þeim efnum.
Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands segir að starfsmenn Veðurstofunnar hafi verið við viðgerðir á mælum við Upptyppinga og gert handmælingar til að staðfesta sjálfvirk mæligildi. Þeir tóku eftir því að Jökulsá var óvenju mórauð miðað við árstíma og jarðhitalykt var af ánni. Rafleiðnin var mæld og gildin við Upptyppinga reyndust tvöfalt hærri en eðlilegt er á þessum árstíma.
Bendir þetta til þess að hlaup sé að hefjast í ánni? „Það gæti bent til þess en við erum ekki viss um að það sé að gerast. Þannig að við þurfum bara að fylgjast með og rannsaka þessa rafleiðnihækkun því að þetta gæti bent til ýmissa hluta, en við erum ekki viss hvað það er,“ segir Sigurdís Björg Jónasdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni.
Er eitthvað sem bendir til þess að kvikuhreyfingar séu valdar að þessu?
„Nei ekki beint. Það hefur enginn órói mælst og engin óvenjuleg skjálftavirkni síðustu tvo þrjá daga, í Bárðarbungu. Auðvitað hefur verið mjög mikil skjálftavirkni í Bárðarbungu undanfarið. En það tengist ekki akkúrat núna.“
Gæti þetta orsakast af bráðnun í sigkötlum, til dæmis í Dyngjujökli eða Bárðarbungu? „Það gæti gert það. Við getum ekki útilokað að vatnið sé að koma frá Bárðarbungu eða úr sigkötlunum. En við vitum í rauninni ekki hvaðan vatnið kemur fyrr en við förum á staðinn og könnum aðstæður betur,“ segir Sigurdís.
Stefnt er að því að fljúga yfir svæðið á morgun, ef veður og skyggni leyfir. Fólk er hvatt til þess að sýna aðgát við upptök árinnar vegna mögulegs gasútstreymis. Sólarhringsvaktin á Veðurstofunni fylgist vel með þróuninni í nótt.
Að sögn Sigurdísar er aukinn viðbúnaður. „Allir vita af þessu sem þurfa að vita af þessu. Almannavarnir og kollegar okkar hjá Jarðvísindastofnun og fleiri,“ segir hún.