Hjúkrunarheimili á Seltjarnarnesi stendur fullgert en ónotað næstu vikurnar. Á meðan bíða hundrað og þrjátíu manns eftir plássi á hjúkrunarheimili. Þetta hefur valdið svo miklu álagi á Landspítalanum að öryggi sjúklinga stendur ógn af.
Óvenjumikið álag skapaðist á Landspítalanum í síðustu viku.
„Staðan á Landspítalanum er mjög þung og við höfum af henni miklar áhyggjur og teljum að geti myndast hættuástand þegar verst lætur,“ segir Alma D. Möller landlæknir.
Fram kom í fréttum að öryggi sjúklinga hefði ekki verið tryggt.
Er það ástand sem landlæknir getur unað við?
„Nei, það er auðvitað óásættanlegt en ég hef skilning á þessari stöðu,“ segir Alma.
„Nei, auðvitað er engan veginn hægt að una við þetta og þarna erum við fyrst og fremst að tala um bráðamóttöku Landspítalans,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís vonast eftir tillögum landlæknis á næstu dögum.
Alls bíða um hundrað og þrjátíu manns á Landspítalanum og nálægum sjúkrahúsum eftir því að komast á hjúkrunarheimili. Fjallað er um skort á hjúkrunarrýmum í sáttmála ríkisstjórnarinnar og þar segir að skorturinn valdi auknu álagi á sjúkrahúsin. Einnig að ráðast eigi í stórsókn í uppbyggingu á hjúkrunarrýmum.
Á Seltjarnarnesi hefur verið byggt hjúkrunarheimili. Þar verður pláss fyrir 40 manns. Það eru ekki nema 3 vikur í að það verði tilbúið en hins vegar gætu verið 2 mánuðir í að það verði tekið í notkun af því að það er ekki búið að auglýsa eftir rekstraraðila.
„Við höfum óskað eftir því frá því sumar að ríkið sjái um að reka þetta heimili og auglýsi eftir rekstraraðila,“ segir Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness.
Þegar reksturinn verður auglýstur verður væntanlega bið eftir að starfsemi hefjist.
„Ég myndi halda að lágmarki tvo mánuði bara til þess að ráða starfsfólk,“ segir Ásgerður.
En hvers vegna hefur ráðuneytið ekki auglýst reksturinn?
„Það er kannski fyrst og fremst vegna þess að það er kveðið á um það í samningnum um þetta hjúkrunarheimili að það sé á borði sveitarfélagsins að annast þetta útboð. Ég held að það sé ekki rétt að vera að eyða miklum tíma í tog við sveitarfélagið um þau mál ef sveitarfélagið horfist ekki í augu við sínar skyldur þá auðvitað gengur ríkið inn í málið til þess að koma þessari starfsemi í gang eins fljótt og auðið er og mér sýnist miðað við stöðuna eins og hún er núna að við getum gert það strax á fyrstu vikum nýs árs,“ segir Svandís.
En fleiri lausnir eru til skoðunar á vanda Landspítalans. Sjúkrahótel verður tekið í notkun í febrúar eða mars. Einnig er kannað hvort auka megi heimahjúkrun og efla mönnun á Landspítalanum.
„Þetta er auðvitað ástand sem ekki er hægt að búa við til langframa,“ segir Svandís.