Hjartasteinn er feikilega áhrifarík kvikmynd um eldsumbrot unglingsáranna og borin uppi af ungum leikhópi sem vinnur stórsigur, að mati gagnrýnenda Menningarinnar.
Hjartasteinn, fyrsta kvikmynd leikstjórans Guðmundar Arna Guðmundssonar í fullri lengd, var frumsýnd í síðustu viku. Myndin gerist í litlu þorpi og segir frá vinunum Þór og Kristjáni og félögum þeirra, sem eru að komast á unglingsaldur.
Ótrúlegt að sjá unglinga halda uppi heilli mynd
„Þetta fjallar í raun og veru um þetta viðkvæma æviskeið þegar við erum að breytast úr í barni í fullorðinn einstakling, þegar þráin vaknar, kynhvötin vaknar, ástartilfinningar og ég tala nú ekki um kynhneigð, sem verður mjög stórt efni í myndinni, en líka vináttan,“ segir Hlín Agnarsdóttir.
„Allur unglingahópurinn er frábær, það sést greinilega hversu lengi þau hafa æft,“ segir Snæbjörn Brynjarsson um leikhópinn, þau Baldur Einarsson, Blæ Hinriksson, Diljá Valsdóttur, Kötlu Njálsdóttur, Jónínu Þórdísi Karlsdóttur og Rán Ragnarsdóttur. Hlín tekur undir og segir Guðmund Arnar greinilega hafa undirbúið þau vel. „Það hefur skilað sér fullkomlega því það er ótrúlegt að sjá þau halda uppi myndinni.“
Kunnugleg sviðsetning sem styður við frásögnina
Sviðsetning myndarinnar er kunnugleg, margir íslenskir kvikmyndagerðarmenn hafa á undanförnum árum gert myndir sem gerast í þorpi eða sveit og flétti náttúrunni inn í frásögnina. Hjartasteinn sé hins vegar gerð af óvenjumikilli fágun.
„Maður verður alltaf pínu smeykur við þetta, þetta er orðin svolítil klisja, óhamingjusama þorpið og íslensk náttúra,“ segir Snæbjörn. „Ég persónulega vil frekar sjá íslenskar persónur – en við fáum það alveg.“
„Náttúran þarna og landslagið styður við allt sem er að vakna inn í brjóstum þessara ungmenna,“ bætir Hlín við. „Guðmundur Arnar speglar þetta líka í grimmd náttúrunnar; innvígslan í fullorðinsheiminn. Þetta er svo stórkostlega gert á allan hátt að maður trúir þessu varla.“