„Hjálmar í sápukúlu suður með sjó“

18.05.2017 - 12:51
„Við eigum að vera umburðarlynd og fordómalaus. Og sýna ólíkum kennsluháttum og skólastarfi skilning,“ segir Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, á Morgunvaktinni í tilefni af harðri gagnrýni framkvæmdastjóra Keilis á íslenska skólakerfið.

Margir kennarar urðu ósáttir við gagnrýni Hjálmars Árnasonar, framkvæmdastjóra Keilis, á íslenska skólakerfið, sem fram kom í viðtali við hann á Morgunvaktinni á mánudag. Hjálmar sagði að við þyrftum að breyta kennsluháttum og hverfa frá miðstýringu í skólakerfinu, sem væri alltaf á eftir þróuninni. Erfitt væri að gera breytingar. Hann gaf skólakerfinu eiginlega falleinkunn, telur það ekki svara kalli tímans. En hvernig snýr þetta að kennurum sjálfum? Guðríður Árnadóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, svaraði Hjálmari á sama vettvangi. Hún sagði að myndin sem Hjálmar dró upp væri röng. „Ég fullyrði að þetta er algjörlega rangt. Flest af því sem Hjálmar hélt fram um hið opinbera skólakerfi var rangt.“ Guðríður sagðist velta fyrir sér hvort Hjálmar hefði ekkert kynnt sér þær miklu breytingar sem orðið hafi á síðustu 20 árum. Miklar breytingar hafi orðið á kennsluháttum og skólakerfinu almennt. „Það er bara eins og Hjálmar hafi misst af því.“ 

„Það er gríðarlega mikil gerjun í skólakerfinu – á öllum skólastigum“

Guðríður Arnardóttir segir að skólakerfið hafi brugðist við þeim miklu tæknibreytingum sem orðið hafi. „Kennsluhættir eru orðnir gífurlega fjölbreyttir.“  Hún nefnir sem dæmi samspil stafrænnar tækni og leiðsagnar kennarans. En tæknin kemur aldrei í stað kennara. „Kennsla er list,“ segir Guðríður Arnardóttir. „Það bætist alltaf eitthvað við í samtali kennara og nemenda.“

„Það er svolítið eins og Hjálmar Árnason sé í sápukúlu suður með sjó. Viðskiptavinir hans eru ekki þessir dæmigerðu íslensku nemendur sem eru að koma inn í framhaldsskóla, eða eru í efstu bekkjum grunnskólans, og vita ekki alveg hvað þeir ætla að gera í framtíðinni.“ Guðríður bendir með þessu á að muninn sem er á því að kenna 16-17 ára nemendum, sem ekki vita alveg hvað þeir ætla sér, og mótuðu fólkinu sem hefur nám hjá Keili.

En hvað segir formaður Félags framhaldsskólakennara um þá fullyrðingu framkvæmdastjóra Keilis að það sé of mikil miðstýring í skólakerfinu, skólarnir fái ekki svigrúm til að þróast hver með sínum hætti? „Algjörlega röng,“ er svarið. Hún segir auðvitað þörf á ákveðinni miðstýringu til að tryggja að skólarnir starfi innan ramma laga. Hinsvegar sé búið að breyta lögum þannig og laga kjarasamninga kennara að því að hver skóli hefur mikið svigrúm. „Þeir geta nánast gert það sem þeim sýnist.“ Guðríður segir að það myndi koma Hjálmari á óvart hversu mikil gróskan er og fjölbreytnin í skólakerfinu.

Réttilega bendir Hjálmar Árnason á mikið brottfall úr framhaldsskólanum, um 30%. Er það ekki vitnisburður um að eitthvað sé að? „Jú, en Hjálmar gefur sér að það séu mögulega staðnaðir kennarar sem valda því að brottfallið sé svona mikið og nemendum leiðist. En flest bendir til að orsakirnar séu að lang stærstum hluta félagslegar.“  Guðríður bendir á að þetta sé verið að skoða, en líklegt sé að það skorti stuðning við þessa nemendur, innan og utan skólans, ungt fólks sem á við einhverja félagslega eða andlega erfiðleika að stríða.

„Mikilvægi skólans er ekki bara skruddurnar og það sem við erum að læra, og nota Google. Við erum að undirbúa nemendur fyrir líf og starf í lýðræðislegu samfélagi,“ sagði Guðríður Arnardóttir á Morgunvaktinni.

 

 

 

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi