Hin tortímandi ást Tímaþjófsins

Ástarsorgin á sér fáar jafn eftirminnilegar táknmyndir í íslenskum samtímabókmenntum og Öldu Ívarsen, söguhetjuna í Tímaþjófi Steinunnar Sigurðardóttur. Rúmum þrjátiu árum og einni kvikmynd eftir að bókin sló í gegn hér heima og erlendis birtist Alda á sviði í fyrsta sinn í nýrri leikgerð Melkorku Teklu Ólafsdóttur, sem verður frumsýnd í Kassanum í Þjóðleikhúsinu í kvöld.

Varnirnar bresta

Tímaþjófurinn fjallar um hina vel ættuðu og sjálfsöruggu Öldu Ívarsen, tungumálakennara við Menntaskólann í Reykjavík, sem ætíð hefur boðið heiminum birginn en reynist varnarlaus þegar ástin loks grípur hana.

Mynd með færslu
 Mynd: Þjóðleikhúsið

„Þetta er kannski týpísk kona sem þorir ekki að tengja og tengjast, en svo þegar hún hleypir inn fyrir skinnið brotna allar varnirnar sem hún er búin að setja upp,“ segir Nína Dögg Filippusdóttir, sem leikur Öldu. Nína las bókina fyrst í framhaldsskóla og segir hana haft mikil áhrif á sig á sínum tíma. „Svo var mjög gaman að lesa hana aftur þegar maður er orðinn fullorðinn. Þá fékk ég öðruvísi sýn. Ekki verri, bara öðruvísi.“

Ástin sem sjálfseyðandi afl

Una Þorleifsdóttir leikstýrir verkinu.  „Í stuttu máli myndi ég segja að þetta sé  verk um ást, höfnun og þráhyggju og í raun hugmyndina um einhverja alltumlykjandi og kannski sjálftortímandi ást. Mér finnst verkið spyrja okkur spurninga um hvað það er að elska, hvað er ást - er ástin alltumlykjandi sjálfseyðandi afl eða er hún eitthvað annað?“

Tónlist og dans leika stórt hlutverk í uppfærslunni. Una segir bókina afbyggja sig og verða sífellt ljóðrænni eftir því sem á líður og það sama gerist í leikgerð Melkorku. 

Mynd með færslu
 Mynd: Þjóðleikhúsið

„Það sem ég ákveð svo að gera er að fara inn í tungumál sviðsins og  hvernig við fjöllum um þessar tilfinningar. Ástin er rosalega líkamleg tilfinning, höfnun er rosalega líkamleg tilfinning og þráhyggja og þetta birtist allt  í einhvers konar hreyfingu. Því fannst mér liggja beinast við að fara inn í hreyfingu og inn í dans og reyna að samtvinna þessa hluti og reyna að búa til einhvers konar sambræðing hreyfingar texta og tónlistar, sem er náttúrulega þessi tilfinningalega upplifun sem ástin er og höfnunin og þráhyggjan.“

Una segir Steinunni hafa hitt á sammannlega taug í bókinni, sem útskýri hversu lífseig hún hefur verið.

„Við höfum öll elskað og öll verið hafnað og öll gengið í gegnum þessar tilfinningar. Ég held að það sé það sem heillaði okkur við hana. Og svo náttúrulega er texti Steinunnar alveg ótrúlega fallegur og þessi ljóðræna og hnyttnin í textanum er það sem við sækjum í.“

Eins og meistarakokkar gera nýja uppskrift úr sama hráefni

Sjálf fékk Steinunn tækifæri til að sjá rennsli undir lok æfinga og var ánægð með afraksturinn.

„Það má líkja þessu við hóp af meistarakokkum sem hefur fengið hráefni í hendurnar sem hópurinn hefur fulla trú á og vinnur síðan frábærlega með þetta hráefni með allskonar nýjum aðferðum. En það er alltaf verið að vinna með þetta eina sanna hráefni þannig séð, það er ekki verið að reyna að búa til gúllas úr lúðu til dæmis. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Steinunn Sigurðardóttir, rithöfundur.

Leikararnir segja setningarnar öðruvísi en ég hugsaði mér þær þegar ég var að skrifa þær. Og harmleikurinn er þannig að ég fór að hágráta, og einhver sagði á eftir: „Nú, er höfundurinn farinn að gráta líka?“ Þannig að þetta er stórkostleg upplifun sem ég er mjög þakklát fyrir.“

Mynd með færslu
Bergsteinn Sigurðsson
dagskrárgerðarmaður
Kastljós
Menningin