Hið hversdagslega andóf

15.03.2017 - 13:19
Lestin · Pistlar · Menning
Sóla Þorsteinsdóttir, bókmenntafræðingur og meistaranemi í menningarfræði, fjallar um hið margslungna fyrirbæri sem er sinnuleysi og hið hversdagslega andóf sem myndast þegar við hættum að láta eins og ekkert sé. Sóla talar um loftslagsbreytingar, afskiptaleysi okkar og loks, hljómsveitina HATARI, sem komið hefur fram sem ákveðið viðbragð við sinnuleysinu.

Sóla Þorsteinsdóttir skrifar:

Það er þessi tilfinning að fallast hendur yfir því sem er stærra en við, sem er of mikið til að takast á við. Þá verður til einhvers konar sjálfsbjargarviðleitni sem felst í því að líta undan. Þegar eitthvað er hreinlega of stór biti til að kyngja og við gefumst upp á að tyggja. Við leggjum ekki einu sinni í að leggja okkur bitann til munns, af því við vitum af hinu óhjákvæmilega, að við getum ekki kyngt honum. Og því er auðveldara að sleppa því einfaldlega að viðurkenna tilvist hins ókyngjanlega bita.

Já, það er þessi tilfinning, afneitunin á því sem kann að virka eins og yfirvofandi heimsendir annars vegar, og andófið sem felst í því að hafna sinnuleysinu hins vegar. Krafturinn sem myndast þarna mitt í togstreitunni. Þegar við eigum kannski auðveldara með að líta undan sem einstaklingar, en kunnum frekar að horfast í augun við vandann saman. Þetta þarf ekki endilega að vera lausn á vandanum, en er þó skrefið sem felst í því að viðurkenna að eitthvað megi betur fara. Þegar við neitum að sökkva í fen afneitunar þá verður til hið hversdagslega andóf þar sem við höfnum þöggun. Höfnum aðgerðarleysi.

Kari Norgaard fjallar um loftslagssinnuleysið (e. Climate apathy) í bókinni Living in Denial, en vert er kannski að taka fram að hún skrifar um atburði sem skeðu fyrir tæpum fimmtán árum og vitundarvakninguna sem hafði orðið þá um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra. Við erum komin lengra í dag, bæði í þeim skilningi að þekking almennings hefur að einhverju leyti aukist, en einnig að hlutirnir líta nú enn verr út en þeir gerðu á ritunartíma verksins.

Kari Norgaard kom til Noregs sumarið 2000, í  lítinn smábæ sem hún kallar Bygdaby, í þeim tilgangi að rannsaka viðhorf Norðmanna til loftslagsbreytinga. Á þessum tíma voru loftslagsbreytingar loks að fikra sig inn í vitund almennings og taldi Norgaard á þeim tíma að Norðmenn væru lengra komnir í vitundarvakningunni heldur en landar hennar, Bandaríkjamenn. Óvenjuhlýtt  var í veðri veturinn sem Norgaard dvaldi í Bygdaby og var það altalað meðal íbúa að snjóleysið hefði mikil og slæm áhrif á efnahag smábæjarins sem gerði sig út á veturna sem vinsæll viðkomustaður ferðamanna og skíðafólks. Að fara úr fimm mánaða vertíð í þrjá mánuði var ákveðinn efnahagslegur skellur. Þó kom það Norgaard mest á óvart hvernig íbúar fóru undan í flæmingi þegar mögulegar ástæður þessarar hlýnunar voru ræddar. Menn vissu að hér væri um loftslagsbreytingar að ræða og að þær væru af manna völdum, en þegar átti virkilega að ræða málin varð fátt um svör. „Íbúar í Bygdaby vissu um hlýnun jarðar, en innlimuðu þessa þekkingu ekki inn í sitt daglega líf,“ segir Norgaard. Þeir gerðu fremur lítið úr málunum eða vildu ekki tala um breytingarnar á veðurfarinu.

Mikilvægur punktur hér er að greining Norgaard gengur ekki út á upplýsingaleysi, það er að almenningur bregðist ekki við sökum vöntunar á upplýsingum, þvert á móti gengur greining hennar út á að þetta sé „samfélagslegt skipulag afneitunar“ þar sem almenningur sem heild streitist á meðvitaðan hátt gegn tiltækum upplýsingum. Þannig nefnir Norgaard að jafnvel þó að fjölmiðlar hafi rætt hlýindi og hið undarlega snjóleysi, hafi þeir aldrei minnst á raunverulegar orsakir hins óvenjulega veðurfars. Þeir gerðu fremur lítið úr málunum og einbeittu sér að því að draga fram jákvæðar hliðar snjóleysisins: Klókir íbúar hefðu útbúið gervisnjóvél, og því snerust fréttir fremur um þessa jákvæðu lausn heldur en vandann sem hún leysti, af hverju það snjóaði ekki.

Nú er ég ekki að leggja til að ég hafi svör á reiðum höndum, um hvernig við leysum stóru málin eins og loftslagsbreytingar, húsnæðisvanda ungs fólks á Íslandi eða úrkynjaða neysluhyggju. Nei, en það er samt hægt að hafna afstöðuleysinu.

Þetta er gríma sem við getum hætt að klæðast og hér langar mig að koma inn á andófið sem fyrirfinnst oft í listum. Hið listræna andóf sem er oft skrefi á undan hversdagsleikanum í að hafna hvers kyns mótlæti. Sem hafnar úrkynjuninni, neysluhyggjunni og öllu þessu braski.

Síðastliðið fimmtudagskvöld héldu HATARI tónleika og ég viðurkenni að þessir tónleikar breyttu svolítið afstöðunni í þessum pistli. Fyrir það er ég fegin. Ég hafði ætlað mér að fjalla aðeins um sinnuleysið sem við upplifum gagnvart of miklu mótlæti. Þegar það er allt of mikið, og við í raun kunnum ekki annað en að líta undan. Þegar það er of sárt að takast á við raunveruleikann. Þegar hann er of grimmur, of kaldur. En… svo fór ég á þessa tónleika sem kveiktu í mér vonarglætu. Ég fann nefnilega kraftinn sem myndaðist í salnum. HATARI hafnar hinum hversdagslega gráma. Þeir eru reiðir. Þeir öskra og þeir hafna sinnuleysinu. Sem er góð áminning um að ég, og við öll, getum það líka. Ég vil frekar vera reið og vera þá líklegri til að drattast til að gera þá eitthvað í hlutunum, heldur en að fljóta um í gráum hversdagsleika. Hitt er kannski auðveldara, en er það virkilega þess virði? Nei, ég bara spyr.

Sóla Þorteinsdóttir fjallaði um sinnuleysi og hið hversdagslega andóf í pistli sínum í Lestinni.

 

Mynd með færslu
Anna Gyða Sigurgísladóttir
dagskrárgerðarmaður
Lestin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi