„Mig langaði til þess að skrifa um tengsl fólks innan óhefðbundinna fjölskyldna og um ritmálið. Ég sagði útgefanda mínum að mig langaði til að skrifa spennusögu um lesblindu, en hún sagði að við þyrftum að finna aðra lýsingu. Þannig að þetta er fjölskyldudrama,“ segir Sigríður Hagalín Björnsdóttir, höfundur Hins heila orðs, sem er bók vikunnar á Rás1.

Hið heilaga orð er ný skáldsaga eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur sem fyrir tveimur árum sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu, Eyland, við góðar undirtektir lesenda og gagnrýnenda. Sagan segir frá því þegar  ung kona hverfur af heimili sínu, frá nýfæddu barni. Lögreglan virðist ráðalaus, en fjölskyldan sendir bróður konunnar að leita hennar. Til að leysa ráðgátuna þarf hann að rekja slóð hennar í framandi heimi og takast á við óvenjulega fortíð fjölskyldunnar.

Hið heilaga orð tekst á við tungumálið í sinni víðustu mynd. Sagan veltir fyrir sér leiðum mannsins til þess að safna, skrá, afskræma og misnota upplýsingar í gegnum tíðina, og í henni er að finna beittar vangaveltur um nýja upplýsingabyltingu sem stefnir í að marka djúp spor í sögu mannsins. Fyrst færði ritmálið afmarkaðri stétt aðgang að tungumálinu, prentmálið gaf alþýðunni aðgang að því og nú stefnir í að ritmálið taki róttækum breytingum á ný.

Rætt var við höfundinn í Víðsjá og hægt er að hlusta á viðtalið hér að ofan, sem og lestur höfundar úr bókinni.

Jóhannes Ólafsson er umsjónamaður Bókar vikunnar á sunnudag og gestir hans eru þau Vera Knútsdóttir, bókmenntafræðingur, og Tómas Ævar Ólafsson, heimspekingur.