Það sem fornleifafræðingar héldu að væri einn hestur reyndust vera þrjú hross og tveir nautgripir. Leifar dýranna eru frá sextándu öld og fundust á botni Þingvallavatns, steinsnar frá bátsflaki frá sama tímabili. Kafari á vegum Náttúruminjasafns Íslands kom auga á bátinn í haust og snemma þótti ástæða til að kanna málið nánar. Báturinn er súðbyrtur vatnabátur og sem talið er að var notaður til veiða.

Niðurstöður aldursgreiningar á hrossatönn sem fannst í nágrenni bátsins bárust safninu í gær og staðfesta að dýrið og báturinn eru frá svipuðum tíma eða frá sextándu öld. 

„Ekki bara aldursgreiningin heldur dýrabeinagreiningin var að koma og í ljós koma að þetta var ekki eitt hross heldur tvö til þrjú hross, fullorðin hross, og tveir nautgripir, og það er afskaplega skemmtileg blanda,“ segir Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur „Ein tönn var send í greiningu og reyndist vera frá sama tíma og báturinn.“

Hvað voru þrjú hross og tveir nautgripir að gera á Þingvallavatni?

„Það er góð spurning, ég hef náttúrulega ekki hugmynd en maður getur velt upp ákveðnum möguleikum.“ Einn möguleiki sé sá að dýrin hafi fallið niður um ís að vetri, annar að bændur hafi kastað sjálfdauðum skeppnum í vatnið eða að menn hafi verið að flytja lifandi dýr milli bæja. „Það gengur ekki heldur upp því fimm stórvaxnir gripir um borð í litlum bát og fólk, það gengur illa upp. Þá er skemtilegasti möguleikinn eftir og hann er sá að menn hafi verið að flytja kjöt, semsagt hluta af skrokkum í aðra hvora áttina. Og í aðra áttina er þinghaldið gamla og í hina er Gjábakki.“

Hugsanlega hafi drífandi bóndi séð sér leik á borði og selt kjötið þar sem múgur og margmenni var saman komið við þinghald. „Beinin styðja það svolítið því þetta eru svona frekar kjötríkir hlutar af skrokkunum.“

Hann segir að lítið sé um bátsminjar á Íslandi en nú sé stjórnavalda að ákveða hvort eigi að varðveita bátinn. Myndir með fréttinni voru birtar með leyfi Náttúruminjasafns Íslands.