Herinn varnaði þingmönnum inngöngu í þinghúsið

epa06132507 General view of the second plenary session of the body in Caracas, Venezuela, 08 August 2017. The Assembly held a session to define the functioning of its plenipotentiary power after taking the parliamentary spaces.  EPA/Miguel Gutiérrez
Nýkjörnir þingmenn á nýju stjórnlagaþingi Venesúela lögðu undir sig þinghúsið í Caracas í gær. Réttkjörnum þingmönnum löggjafarþingsins var hins vegar meinaður aðgangur að þinghúsinu af vopnuðum sveitum hersins.  Mynd: EPA  -  EFE
Hersveitir umkringdu þinghúsið í Caracas, höfuðborg Venesúela, í gær, þriðjudag, og meinuðu þingmönnum löggjafarþingsins að fara þar inn fyrir dyr. Í staðinn var þingmönnum hins nýja stjórnlagaþings hleypt inn í salinn, en þeir koma allir úr flokki Maduros. Fulltrúar tólf Ameríkuríkja fordæmdu í gærkvöld andlýðræðislega stjórnarhætti í Venesúela.

Andstæðingar ríkisstjórnar Nicolasar Maduros tryggðu sér meirihluta á löggjafarþinginu í kosningum í desember 2015. Segja má að stríð hafi staðið milli framkvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins allar götur síðan og það hefur harðnað mjög á síðustu mánuðum. Kosningarnar til hins nýja stjórnlagaþings, sem Maduro og stjórn hans blésu til 30. júlí var hluti af því stríði. Stjórnarandstaðan hvatti kjósendur til að sniðganga kosningarnar og viðurkennir ekki lögmæti hins nýja þings.

Þegar þingmenn löggjafarþingsins hugðust mæta til vinnu í þinghúsinu í gær mættu þeim vopnaðir hermenn sem vörnuðu þeim inngöngu. Skömmu síðar streymdu nýkjörnir stjórnlagaþingmenn í þinghúsið og funduðu í aðalsalnum. Á þessum öðrum, formlega fundi stjórnlagaþingsins lýsti það sjálft sig æðsta löggjafarvald landsins.

Óttast harðneskjulegt einræði

Stalín González, leiðtogi stjórnarandstæðinga á þinginu, segir þetta sönnun þess að ríkisstjórn Maduros taki þau svið stjórnmálaheimsins einfaldlega með vopnavaldi, sem þeim mistekst að tryggja sér með löglegum hætti. Freddy Guevara, varaforseti þingsins, tekur í sama streng og segist óttast að harðneskjuleg einræðisstjórn vofi yfir landi og þjóð. 

Ameríkuríki fordæma ólýðræðislega stjórnarhætti Maduros

Utanríkisráðherrar og háttsettir fulltrúar utanríkisþjónustu tólf Ameríkuríkja sendu í gærkvöld frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem ríkisstjórn Venesúela er fordæmd fyrir andlýðræðislega stjórnarhætti. Fram kemur að ríkin tólf muni ekki viðurkenna lögmæti og umboð hins nýja stjórnlagaþings, sem kosið var til á dögunum.

Fundur fulltrúa ríkjanna tólf var haldinn í Lima í Perú. Í yfirlýsingu þeirra segir að ríkin telji allar ákvarðanir hins nýja þings marklausar og að engu hafandi, þrátt fyrir að stjórn Nicolasar Maduros, forseta Venesúela, hafi veitt því víðtæk völd.

Ríkin tólf sem skrifa upp á yfirlýsinguna eru Kanada, Argentína, Mexíkó, Brasilía, Chile, Kólumbía, Kosta Ríka, Gvatemala, Hondúras, Panama, Paragvæ og Perú.  

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV