Hentar að vera kamelljón í tónlist

Atli Örvarsson
 · 
Hof
 · 
Klassísk tónlist
 · 
Kvikmyndir
 · 
Popptónlist
 · 
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni

Hentar að vera kamelljón í tónlist

Atli Örvarsson
 · 
Hof
 · 
Klassísk tónlist
 · 
Kvikmyndir
 · 
Popptónlist
 · 
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
30.04.2017 - 16:36.Bergsteinn Sigurðsson
Atli Örvarsson óttaðist að það gæti gert út af við feril sinn sem kvikmyndatónskáld þegar hann flutti frá Hollywood til Akureyrar fyrir nokkrum árum. Hann hefur hins vegar aldrei haft meira að gera en nú og er meðal annars að ljúka við að tónsetja Hollywood-mynd með Ryan Reynolds og Samuel Jackson í aðalhlutverkum. Í dag verða haldnir tónleikar í Hofi á Akureyri með tónlist Atla.

Öllu tjaldað til

Atli Örvarsson er eitt afkastamesta og farsælasta kvikmyndatónskáld Íslendinga. Hann hefur samið tónlist við tugi vinsælla sjónvarpsþátta og kvikmynda, bæði í  Bandaríkjunum og á Íslandi. Í dag 30. apríl stýrir hann Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í Hofi, sem mun leika úrval úr verkum hans.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Þetta er mest sinfónísk tónlist. Það er stór hljómsveit, kór, einleikarar, einsöngvarar og öllu tjaldað til.“

Hann segir það henta sér vel að semja kvikmyndatónlist þar sem hann þurfi oft að flakka á milli ólíkra tónlistargreina.

„Ég er búinn að komast að því að mín lína er að vera kamelljón og fara í öll þessi mismunandi hlutverk og prófa mismunandi músík. Það er hrikalega gaman að fara úr einu í annað.“ 

Aldrei verið meira að gera

Atli bjó í Bandaríkjunum um langt skeið og kom ár sinni vel fyrir borð í Hollywood. Fyrir nokkrum árum ákváðu þau hjónin að flytja heim á æskuslóðir Atla á Akureyri, þar sem hann hefur haldið áfram að tónsetja kvikmyndir í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. 

„Það sem kemur mér mest á óvart er að það er meira en nokkru sinni að gera. Ég var pínu „nervös“ að flytja til Akureyrar, hélt að ferillinn myndi kannski bara enda en það er öðru nær. Annað hvort er þetta tilviljun eða maður er „exótískari" því maður býr á Íslandi.“ Nýjasta verkefni Atla er bandaríska stórmyndin The Hitman's Bodyguard,  með Ryan Reynolds og Samuel L. Jackson í aðalhlutverki.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Atli í hljóðveri ásamt leikstjóra The Hitman's Bodyguard, Patrick Hughes.

Í þetta sinn tók hann upp tónlistina í hljóðveri úti á Granda í Reykjavík og fékk fjölda íslenskra tónlistarmanna til liðs við sig. Hann vonar að velgengni sín verði til þess að fleiri verkefni rati til Íslands, þar sem fjarlægðin sé ekki lengur fyrirstaða í kvikmyndabransanum. 

„Ég vona það. Ég vona að þetta auki við atvinnu á þessu sviði og orðspor Íslands í kvikmynda- og músíkbransanum um. Þetta helst allt í hendur. Þetta er orðin svo alþjóðleg grein.“ 

Gríðarlega mikilvægt fyrir tónlistarlífið

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, listrænn stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, velkist ekki í vafa um mikilvægi Atla.

„Það að fá mann eins og Atla sem er kvikmyndatónskáld og er aðallega að búa til tónlist fyrir sinfóníuhlómsveit, þá er þetta gríðarlega mikilvægt. Bæði skapar hann verkefni fyrir hljómsveitina og svo er hann líka kyndill, eða ljóstýra í myrkrinu til að fylgja eftir að allt er hægt. Ég er fullviss um að það muni koma fleiri tónskáld frá Akureyri.“ 

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Atli semur fyrir mynd með Reynolds og Jackson