Hollensku hjónin sem hröpuðu tugi metra við Dyrhólaey í síðustu viku segja jörðina skyndilega hafa opnast undir fótum þeirra. Maðurinn hélt að þetta væru endalokin.
Hjónin Irmgard Fraune og Jeroen De Graf voru að njóta útsýnisins við Dyrahólaey þegar syllan sem þau stóðu á gaf sig og þau féllu um 40 metra niður í fjöruna með grýttri skriðu. Irmgard segir að fyrst hafi heyrst drunur, líkt og stór vörubíll hefði ekið hjá. Svo hafi jörðin gefið sig.
Jeroen segist ekki hafa áttað sig á því hvað var að gerast. En þegar hann byrjaði að falla niður með skriðunni hafi hann óttast að þetta væru endalokin.
Þau eru bæði afar þakklát þeim sem komu þeim til hjálpar. Jeroen fótbrotnaði en Irmgard gekk eftir hjálp með brotinn hryggjarlið og komst að því síðar að hún hefði getað lamast. Þau eru nú að jafna sig á Landspítalanum.
Rætt var við hjónin í útvarps- og sjónvarpsfréttum en á myndbandinu sem fylgir fréttinni er viðtalið í heild sinni ótextað.