Helga Bachmann, leikari og leikstjóri, lést í gær, sjötíu og níu ára að aldri.
Helga var fædd í Reykjavík 24. júlí árið 1931. Eftir gagnfræðapróf frá Hallormsstaðarskóla árið 1948, sneri hún sér að leiklistinni. Hún lærði í tvö ár við Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar og árið 1953 við Leiklistarskóla Gunnars R. Hansens.
Leikferil sinn hóf Helga árið 1952 hjá Leikfélagi Reykjavíkur þar sem hún starfaði í aldarfjórðung. Meðal stærstu hlutverka hennar þar voru Halla í Fjalla-Eyvindi eftir Jóhann Sigurjónsson. Auk þess lék hún í fjölda annarra leikverka. Leið Helgu lá í Þjóðleikhúsið og þar starfaði hún í annan aldarfjórðung, til ársins 2000.
Hún vann einnig sem leikstjóri og setti meðal annars á svið leikgerð sína á Reykjavíkursögum Ástu Sigurðardóttur í Kjallaraleikhúsinu. Þá lék Helga í kvikmyndunum Í skugga hrafnsins og Atómstöðinni.
Helga var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1986.
Helga var gift Helga Skúlasyni leikara sem lést árið 1996. Eftilifandi börn þeirra eru Hallgrímur Helgi, Skúli Þór og Helga Vala. Önnur dóttir Helgu heitir Þórdís.